122. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn í Duus Safnahúsum þann 14. desember 2017 kl. 14:00.
Viðstaddir: Baldur Guðmundsson, Dagný Alda Steinsdóttir, Guðbjörg Ingimundardóttir, Kristín Gyða Njálsdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri stjórnsýslusviðs, Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður byggðasafns Reykjanesbæjar, Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, Tómas Viktor Young framkvæmdastjóri Hljómahallar, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi, Guðlaug María Lewis ritaði fundargerð, Jón Stefán Einarsson gestur fundarins.
1. Verndarsvæði í byggð (2016090211)
Safnstjóri byggðasafnsins og um leið verkefnisstjóri Verndarsvæðis í byggð fór yfir stöðu verkefnisins og sagði frá því sem fram undan er. Sýningin í Duus Safnahúsum gerir ráð fyrir að íbúar séu virkir í tillögusmíði og nú þegar hafa nokkrar tillögur borist. Sérstök nemendavinna í Keflavíkurhverfinu hefst eftir áramót og í beinu framhaldi af því hefst svo vinna við Njarðvíkurhverfin, Hafnir og Ásbrú.
Jón Stefán Einarsson arkitekt sem ráðinn hefur verið að verkefninu kynnti sinn þátt en hann mun vinna skýrsluna sem er forsenda styrkveitingarinnar frá Minjastofnun.
Ráðið skoðaði sýninguna og fulltrúar skiluðu inn tillögum. Ráðið hvetur bæjarbúa til að nýta sér ókeypis aðgang að Duus Safnahúsum á meðan á sýningunni stendur og taka þátt í framtíðarskipulagi bæjarins með virkum hætti.
2. Stefnumótun safnanna (2017120105)
Nokkrar umræður fóru fram í tengslum við stefnumótun safnanna sem fara skal fram á næsta ári. Fram kom í máli safnstjóra að leitað verður til íbúa, bæði einstaklinga og félagasamtaka í tengslum við þá vinnu því söfnin eru í þjónustu fyrir almenning og því nauðsynlegt að almenningur hafi eitthvað um þau að segja. Ráðið mun einnig koma að þessari stefnumótun með beinum hætti.
3. Önnur mál (2017010176)
a) Ráðið þakkar söfnunum og menningarskrifstofu öfluga viðburðadagskrá á aðventu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. desember 2017.