134. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn í Hljómahöll þann 8. febrúar 2019 kl. 08:30.
Viðstaddir: Elfa Hrund Guttormsdóttir, Kristján Jóhannsson, Þóranna Kristín Jónsdóttir, Helga Auðunsdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Valgerður Guðmundsdóttir og Guðlaug María Lewis sem ritaði fundargerð. Ásbjörn Jónsson var í símasambandi á fundinum.
1. Menningarstefna Reykjanesbæjar 2019-2029 (2018010147)
Umræður um endurskoðun menningarstefnu Reykjanesbæjar. Málinu frestað til næsta fundar.
2. Ársskýrsla Duus Safnahúsa (2019020079)
Menningarfulltrúi lagði fram ársskýrslu Duus Safnahúsa. Starfsemin 2018 var með hefðbundnu sniði; fjölbreytt viðburðadagskrá var í gangi allt árið, 22 nýjar sýningar voru opnaðar auk þeirra þriggja sem teljast fastar sýningar, móttökur og alls kyns fundir fóru einnig fram í húsinu. Gestir voru 31.845 og hafði fjölgað um 26 % frá fyrra ári enda ókeypis aðgangur stærstan hluta ársins í tilefni afmælis Byggðasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Reykjanesbæjar. Duus Safnahús fengu Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi þetta árið.
Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.
3. Erindi Tómasar Knútssonar (2019010062)
Menningarráð áréttar að í samþykktri söfnunarstefnu Byggðasafns Reykjanesbæjar er eftirfarandi tekið fram; „Safnið kaupir ekki gripi. Gripir berast safninu með því að almenningur býður þá fram eða með því að safnið auglýsir eftir gripum.“ Í söfnunarstefnunni kemur einnig fram að ekki sé „tekið á móti gripum sem kvaðir fylgja“ og að einungis sé tekið við hlutum sem varða sögu bæjarfélagsins og á því séu gerðar fáar undantekningar.
Hins vegar vill ráðið benda á að í áðurnefndri stefnu er jafnframt kveðið á um að sérstök áhersla sé lögð á að safna munum og minjum er varða sögu og þróun Keflavíkurflugvallar, flugstarfseminnar, hersins og varnarliðsins og tengsl hermanna og bæjarbúa. Ráðið fagnar öllum gjöfum sem berast Byggðasafninu varðandi þessa þætti og eru í samræmi við samþykkta söfnunarstefnu þess.
4. Menningarsjóður, innsendar umsóknir (2019020080)
Umsóknarfrestur í Menningarsjóð Reykjanesbæjar rann út 3. febrúar s.l. Alls bárust 10 umsóknir um verkefnastyrk og 15 umsóknir um þjónustusamning. Ráðið mun nú fara yfir allar umsóknir og bjóða umsækjendum um þjónustusamninga að gera grein fyrir starfsemi sinni mánudaginn 25. febrúar á milli kl. 17-19 í Stofunni í Duus Safnahúsum. Tímapantanir í þjónustuveri Reykjanesbæjar.
5. Íbúafundur vegna Ljósanætur (2019020082)
Ráðið þakkar þeim sem mættu á íbúafund vegna Ljósanætur. Tillögur úr hópavinnu verða hafðar til hliðsjónar við skipulagningu hátíðarinnar í haust.
Ráðið fagnar því að gerð hafi verið könnun meðal íbúa til að kanna hug þeirra í tengslum við Ljósanótt. Ráðið vill benda á að mikilvægt er að hafa í huga að bæði íbúafundur og sú könnun sem deilt var á netinu er hlutdræg hvað varðar þýði svarenda og líkleg til að endurspegla hug tiltölulega fámenns hóps íbúa sem þegar hafa sterka tengingu við sveitarfélagið og hátíðina. Könnun Félagsvísindastofnunar er líklegri til að vera marktækari þar sem þýðið er slembiúrtak og niðurstöður hennar ættu því að hafa meira vægi þegar niðurstöður í heild eru túlkaðar.
Mikil umræða hefur skapast um fjölmenningu í Reykjanesbæ og með tilkomu fjölmenningarfulltrúa eru ýmsar aðgerðir í farvatninu sem ætlað er að auka þátttöku íbúa af erlendu bergi brotnu í Ljósanótt og menningarstarfi Reykjanesbæjar öllu. Um leið og ráðið fagnar þessu vill það vekja athygli á því að í svo stóru bæjarfélagi sem Reykjanesbær er núna er nauðsynlegt að fara í aðgerðir til að ná til allra íbúa bæjarins, en aðfluttum íbúum hefur fjölgað ört. Nauðsynlegt er að bjóða aðflutta íbúa velkomna í bæinn og til þátttöku í Ljósanótt og fara í sértækar aðgerðir til að stuðla að þátttöku þeirra jafnt í Ljósanæturhátíðinni sem og samfélaginu okkar öllu.
6. Önnur mál (2019010150)
a) Ráðið óskar Gyltunum og Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með vel heppnaðar sýningar á frumsamda unglingaleikritinu „Ég er furðuverk“.
b) Ráðið vekur athygli á nýjum sýningum sem opna í Duus Safnahúsum föstudaginn 15. febrúar kl. 18.00 og minnir bæjarbúa á að þeir eru velkomnir við opnun. Listasafn Reykjanesbæjar opnar tvær sýningar; Teikn, einkasýningu Guðjóns Ketilssonar og ljósmyndasýningu úr safneigninni og Byggðasafn Reykjanesbæjar opnar ljósmyndasýninguna Fólk í kaupstað sem eru myndir úr ljósmyndasafni bæjarins einkum tengdar 70 ára afmæli Keflavíkurkaupstaðar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. febrúar 2019.