371. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar vaer haldinn að Tjarnargötu 12 þann 13. febrúar 2019 kl. 14:00.
Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Ársskýrsla velferðarsviðs 2018 (2019020134)
Ársskýrslan lögð fram.
2. Skipan í öldungaráð Reykjanesbæjar (2018120095)
Skv. 38 grein laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, „skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni“.
Allir hlutaðeigandi aðilar hafa tilnefnt fulltrúa í öldungaráð Reykjanesbæjar og eru þeir eftirfarandi:
Þórdís Elín Kristinsdóttir (S)
Rúnar V. Arnarsson (D)
Díana Hilmarsdóttir (B)
Eyjólfur Eysteinsson, Félagi eldri borgara
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Félagi eldri borgara
Loftur H. Jónsson, Félagi eldri borgara
Margrét Blöndal, deildarstjóri heimahjúkrunar, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
3. Samþætting heimaþjónustu og heimahjúkrunar (2018030095)
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti skýrslu vinnuhóps vegna samstarfs velferðarsviðs Reykjanesbæjar og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um samstarf og samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í Reykjanesbæ.
Velferðarráð tekur undir þær tillögur sem fram koma í skýrslunni og vísar þeim til frekari vinnslu vinnuhópsins.
4. Heilsa og líðan eldri borgara á Suðurnesjum (2019020133)
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti niðurstöður könnunar sem Maskína-rannsóknir ehf. gerði á heilsufari og félagslegri velferð eldri borgara á Suðurnesjum fyrir þjónustuhóp aldraðra sumarið 2018, en könnunin var hluti af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurnesja.
5. Fjölþætt heilsuefling 65+ árið 2019 (2019020135)
Þriðji hópur 65+ er nú að hefja þátttöku í verkefninu Fjölþættri heilsueflingu 65+ í Reykjanesbæ. Skráðir eru um 75 þátttakendur og fara æfingar fram í Sporthúsinu, en fyrri hópar halda áfram þjálfun í Massa. Allir hópar nýta sér einnig inniaðstöðuna í Reykjaneshöll. Hópurinn sem byrjaði í fyrra (2018) er kominn á þriðja þrep í þjálfun og pilothópurinn (2017) er nú orðinn nánast sjálfbær og nýtur fjarþjálfunar undir handleiðslu Janusar heilsueflingar slf. Samtals taka því um 235 manns þátt í verkefninu núna í ársbyrjun 2019. Áætlað er að hægt verði að taka inn nýliða á um 6 mánaða fresti og að heildarfjöldi þátttakenda verði á hverjum tíma um 160 manns, auk þeirra sem eru í fjarþjálfun. Í Fjölþættri heilsueflingu 65+ er veitt þol-og styrktarþjálfun, þjálfað undir leiðsögn með persónubundinni þjálfunaráætlun, veitt reglubundin fræðsla á sviði heilsu og velferðar sem snertir eldri aldurshópa og heilsufarsmælingar gerðar við upphaf þátttöku og síðan á 6 mánaða fresti, sem gefur þátttakendum færi á að meta persónulegan árangur sinn með reglubundnum hætti og gera viðeigandi ráðstafanir til bættrar heilsu og betri lífsgæða. Með þátttöku sveitarfélagsins vill velferðarráð Reykjanesbæjar stuðla að því að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og búið við sem mest lífsgæði í anda markmiðsgreinar laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
6. Staða í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd (2018040197)
Velferðarráð þakkar Þorsteini Gunnarssyni og Davíð Kristjánssyni, fulltrúum Útlendingastofnunar greinargóða kynningu á þjónustu Útlendingastofnunar við umsækjendur um alþjóðlega vernd á fundi sem haldinn var 5. febrúar sl. Þá sérstaklega varðandi þá einstaklinga sem dvelja í Reykjanesbæ en eru á vegum stofnunarinnar. Í kjölfar kynningarinnar teljum við mikilvægt að óska eftir fundi á næstunni með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þeim ráðuneytum sem að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd koma.
7. Mælaborð velferðarsviðs og tölulegar upplýsingar vegna ársins 2018 (2018020247)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti mælaborð ársins 2018.
8. Fundargerð samtakahópsins 17. janúar 2019 (2019010279)
Fundargerðin lögð fram.
9. Fundargerðir stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja 7. janúar og 4. febrúar 2019 (2019010200)
Fundargerðirnar lagðar fram.
10. Starfsáætlun velferðarsviðs 2019 (2019010121)
Starfsáætlunin lögð fram.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. febrúar 2019.