376. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 12. júní 2019 kl. 14:00
Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar, Sigríður Daníelsdóttir forstöðumaður fjölskyldumála, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Tilkynning frá Útlendingastofnun um leigu á húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd (2019050553)
Lagður fram tölvupóstur frá Útlendingastofnun þar sem fram kemur að óskað hafi verið eftir því við sveitarfélög að auka við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en engin jákvæð svör hafi borist. Einnig hafi verið leitað að hentugu húsnæði á suðvesturhorninu. Stofnunin sé í viðræðum um húsnæði á Ásbrú sem væri þá viðbót við það sem fyrir er á svæðinu. Það þýðir að 170 manns gætu verið í þjónustu Útlendingastofnunar á Ásbrú með möguleika á fjölgun í allt að 250 manns.
Velferðarráð hefur ekki legið á skoðunum sínum varðandi málefni einstaklinga sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd. Skýr stefna sveitarfélagsins er sú að uppfylla þjónustusamning sem gerður hefur verið við Útlendingastofnun um að sinna þjónustu við fjölskyldur eða einstaklinga í viðkvæmri stöðu, allt að 70 manns, og gera það vel. Í þeirri þjónustu hefur tekist nokkuð vel að aðlaga einstaklinga að samfélaginu og veita stuðning í nærumhverfi á meðan einstaklingarnir bíða eftir úrlausn sinna mála. Á sama tíma hefur Útlendingastofnun skort húsnæði til að taka á móti fleiri einstaklingum og því þurft að leigja húsnæði m.a. í Reykjanesbæ þar sem Útlendingastofnun sér um daglegan rekstur þar sem dvalið geta allt að 100 manns í einu. Þeir einstaklingar tengjast þjónustu sveitarfélagsins ekki á nokkurn hátt. Velferðarráði hugnast ekki sú hugmynd Útlendingastofnunar að stækka þjónustuhóp þeirra í sveitarfélaginu enn frekar og hefur áður leitað til stofnunarinnar og mælt með aðkomu fleiri sveitarfélaga. Mikilvægt er að kynna vel fyrir öðrum sveitarfélögum hver samfélagslegi ávinningurinn er af því að sinna þessari þjónustu. Fulltrúar Reykjanesbæjar eru tilbúnir að taka þátt í þeirri vinnu.
2. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd 2019 (2019050553)
Fulltrúar dómsmálaráðuneytis, Berglind Bára Sigurjónsdóttir skrifstofustjóri, Vera Dögg Guðmundsdóttir lögfræðingur og Hanna Rún Sverrisdóttir lögfræðingur mættu á fundinn.
Velferðarráð þakkar fulltrúum dómsmálaráðuneytisins fyrir kynningu þeirra. Eins og áður hefur komið fram hafa Reykjavíkurborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær gert þjónustusamning við Útlendingastofnun en önnur sveitarfélög alfarið getað neitað aðkomu. Velferðarráð minnir enn og aftur á mikilvægi þess að skýr stefna verði mótuð í málaflokknum og að fleiri sveitarfélög komi að borðinu. Huga þarf að stefnumótun á verklagi við móttöku með öðrum sveitarfélögum. Fulltrúar Reykjanesbæjar eru tilbúnir að taka þátt í þeirri vinnu. Velferðarráð leggur áherslu á áframhaldandi samstarf við dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun varðandi málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd.
3. Lýðheilsuvísar 2019 - Suðurnes (2019060174)
Hafþór B. Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, mætti á fundinn. Hann kynnti forvarnarstarf sem unnið er í Reykjanesbæ og fór yfir niðurstöður Lýðheilsuvísa fyrir Suðurnes árið 2019.
Velferðarráð þakkar fyrir góða kynningu.
Fylgigögn
Lýðheilsuvísar 2019 - Suðurnes
Lýðheilsuvísar 2019 - kynning
4. Neyðarsjóður - erindi frá Fjölskylduhjálp Íslands (2019051283)
Fulltrúar Fjölskylduhjálpar hafa boðið velferðarráði í heimsókn til að kynna starfsemina betur. Velferðarráð þiggur boðið og setur í hendur sviðsstjóra að finna heppilega tímasetningu. Afgreiðslu styrkbeiðninnar frestað þar til frekari upplýsingar liggja fyrir.
Fylgigögn
Neyðarsjóður Fjölskylduhjálpar Íslands - beiðni um styrk
5. Félagsþjónusta - lögmæti skilyrðis um lágmarkslengd búsetu (2019051947)
Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneytinu til samtaka félagsmálastjóra á Íslandi varðandi álit félags- og barnamálaráðherra um lögmæti skilyrðis um lágmarkslengd búsetu í sveitarfélagi til að öðlast rétt til félagsþjónustu. Þar er því beint til sveitarfélaga sem sett hafa skilyrði um lágmarksbúsetulengd sem ganga lengra en heimilt er skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að taka slík ákvæði til endurskoðunar þannig að þau samræmist lögunum.
Vinnuhópur um húsnæðisstuðning sveitarfélagsins er að skoða húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar og þar verður tekið tillit til tilmæla ráðherra.
Fylgigögn
Lögmæti skilyrðis um lágmarkslengd búsetu - bréf frá félagsmálaráðuneyti
6. Klúbburinn Geysir - styrkumsókn 2019 (2019051318)
Erindi frá Klúbbnum Geysi þar sem óskað er eftir styrk til að styðja við starfsemina.
Velferðarráð þakkar fyrir áhugaverðar upplýsingar um starfsemi Klúbbsins Geysis og óskar honum velfarnaðar. Reykjanesbær hefur lagt áherslu á að vernda og byggja upp starfsemi Bjargarinnar fyrir íbúa á svæðinu. Ekki er hægt að verða við styrkbeiðninni.
Fylgigögn
Klúbburinn Geysir - styrkumsókn 2019
Klúbburinn Geysir - Með þér út í lífið - bæklingur
Litli Hver - Geðheilsa er líka heilsa - bæklingur
7. Fundargerðir stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja 4. mars, 1. apríl og 6. maí 2019 (2019050525)
Fundargerðirnar lagðar fram.
Fylgigögn
Fundargerð stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja 4. mars 2019
Fundargerð stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja 1. apríl 2019
Fundargerð stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja 6. maí 2019
8. Fundargerð samtakahópsins 9. maí 2019 (2019050292)
Fundargerðin lögð fram.
Með vísan í niðurstöður könnunar Rannsóknar og greiningar um vímuefnanotkun 8. – 10. bekkinga vill velferðarráð brýna nauðsyn þess að hvergi verði slakað á í forvarnarmálum.
Fylgigögn
Fundargerð Samtakahópsins 9. maí 2019
Hreyfivika UMFÍ 27. maí - 2. júní 2019
2019 - Víma - könnun
Forvarnardagur 20. maí 2019 - auglýsing
Forvarnardagur 20. maí 2019 - dagskrá
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. júní 2019.