386. fundur

08.04.2020 14:00

386. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 8. apríl 2020, kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, María Gunnarsdóttir staðgengill sviðsstjóra og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2020021149)

María Gunnarsdóttir staðgengill sviðsstjóra velferðarsviðs, lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í janúar 2020 fékk 121 einstaklingur greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 15.631.698. Í sama mánuði 2019 fengu 63 einstaklingar greiddan framfærslustyrk.
Í febrúar 2020 fengu 120 einstaklingar greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 16.598.172. Í sama mánuði 2019 fengu 79 einstaklingar greiddan framfærslustyrk.
Í mars 2020 fengu 123 einstaklingar greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 16.903.579. Í sama mánuði 2019 fengu 90 einstaklingar greiddan framfærslustyrk.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í janúar 2020 fengu alls 213 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 2.951.067,- Í sama mánuði 2019 fengu 157 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.
Í febrúar 2020 fengu alls 213 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 2. 966.202,- Í sama mánuði 2019 fengu 164 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.
Í mars 2020 fengu alls 222 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.121.887. Í sama mánuði 2019 fengu 165 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.

Áfrýjunarnefnd

Í janúar 2020 voru 19 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 16 erindi voru samþykkt, 1 erindi synjað og 1 erindi frestað og 1 erindi lagt fram til kynningar.
Í febrúar 2020 voru 22 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 16 erindi voru samþykkt, 2 erindi samþykkt að hluta, 1 erindi synjað og 3 erindum frestað.
Í mars 2020 voru 15 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 11 erindi voru samþykkt og 4 erindum synjað.

Fylgigögn:

Greinargerð með mælaborði

2. Ársskýrsla velferðarsviðs 2019 (2020040070)

Ársskýrsla lögð fram. Velferðarráð þakkar framkomna ársskýrslu og hrósar starfsmönnum fyrir greinargóða skýrslu.

Fylgigögn:

Ársskýrsla velferðarsviðs Reykjanesbæjar

3. Sumarúrræði fyrir fötluð börn (2020040071)

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langavarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 kemur fram í 16. gr. að sveitarfélag skuli bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu. Reykjanesbær hefur boðið fötluðum börnum og ungmennum upp á sumarúrræði undanfarin ár. Eftirspurn eftir frístundaúrræði fyrir börn og ungmenni með fötlun jókst verulega á árinu 2019 frá því árinu á undan, en þá nýttu 14 börn úrræðið. Á árinu 2019 voru 31 barn sem nýttu sér úrræðið frá aldrinum 6-18 ára. Í ár hafa foreldrar 44 barna óskað eftir þessu úrræði sem er töluverð aukning. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 7 stöðugildum sem mun ekki duga til að mæta þessu úrræði og því leggur velferðarráð til að fjölgun starfa verði mætt í gegnum atvinnuátaksverkefni sveitarfélagsins með hugsanlegri aðkomu ríkisins/Vinnumálastofnunar. Þar sem frístundaþjónusta við fötluð börn og ungmenni er lögum skv. ætluð sem sumarúrræði fyrir aldurshópinn fram að lokum framhaldsskóla og Vinnuskólinn greiðir eingöngu laun til 18 ára aldurs þarf að finna lausn á greiðslu launa fyrir þann hóp sem er á 19 ári og lagt til að það verði gert af sama lykli og sumarúrræði annarra starfsmanna sveitarfélagsins 18 ára og eldri.

Fylgigögn:

Greinargerð - sumarúrræði fatlaðra barna

4. COVID-19 (2020030203)

María Gunnarsdóttir staðgengill sviðsstjóra velferðarsviðs kynnti aðgerðaáætlun velferðarsviðs vegna heimsfaraldar veirusýkinga.
Gerð hefur verið aðgerðaáætlun fyrir Velferðarsvið Reykjanesbæjar sem starfsmenn vinna eftir í þeim heimsfaraldri sem nú gengur yfir. Var hún gerð á grundvelli Viðbragðsáætlunar Reykjanesbæjar við Covid-19 heimsfaraldrinum.
Þjónustu velferðarsviðs hefur verið breytt til að mæta þörfum notenda en tryggja um leið öryggi þeirra. Er það gert með því að færa þjónustu í meira mæli heim til notenda, veita fjarþjónustu þar sem því verður komið við og sinna vel eftirfylgd með símtölum við notendur. Upplýsingar um Covid-19 er hægt að nálgast á ýmsum tungumálum á heimasíðu Reykjanesbæjar.
Af um 150 starfsmönnum velferðarsviðs hefur enn enginn starfsmaður smitast af Covid-19 og hafa aðeins fáir starfsmenn þurft að fara í sóttkví. Skiptir hér miklu að starfsmenn velferðarsviðs fylgja vel tilmælum sóttvarnarlæknis og Almannavarna bæði í starfi og utan þess. Ekki hefur enn þurft að kalla eftir starfsmönnum úr bakvarðarsveit velferðarþjónustu en næstu vikur munu reyna á úthald, styrk og þrautseigju starfsmanna og stjórnenda og gott að vita til þess að til er gott bakland á þessum erfiðu tímum.
Velferðarráð Reykjanesbæjar færir öllu starfsfólki í velferðarþjónustu sveitarfélagsins kærar þakkir fyrir viðbrögð þeirra í kjölfar þess að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir á landinu vegna Covid-19.
Samkomubann og aðrar takmarkanir hafa þýtt röskun á hefðbundnu starfi sem starfsfólk hefur fundið lausnir á og unnið út frá þeim tilmælum sem gefin hafa verið af mikilli fagmennsku.
Velferðarráð færir notendum þjónustunnar, aðstandendum þeirra og starfsfólki hlýjar kveðjur og hvatningu í þeim verkefnum sem framundan eru.

Fylgigögn:

Greinargerð Covid 19

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.35. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. apríl 2020.