396. fundur

10.03.2021 14:00

396. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 10. mars 2021 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Barnvænt sveitarfélag (2020021548)

Hjörtur Magni Sigurðsson, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags í Reykjanesbæ, mætti á fundinn og kynnti verkefnið og stöðu þess.

Unnið er að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnvæns sveitarfélags í Reykjanesbæ. Í því felst að sveitarfélagið gerir barnasáttmálann að rauðum þræði í allri starfsemi sinni og notar hann sem sérstakt gæðastjórnunarverkfæri á öllum sviðum. Verklag við að meta áhrif ákvarðana og stefnumótunar á börn er tekið upp og sveitarfélagið viðurkennir að í röddum, viðhorfum og reynslu barna og ungmenna felast verðmæti. Sveitarfélagið á markvisst samráð við börn og ungmenni og nýtir raddir þeirra til að bæta þjónustu sveitarfélagsins.

2. Allir með! (2020010276)

Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mætti á fundinn og kynnti verkefnið og stöðu þess.

Allir með hefur það meginmarkmið að stuðla að jöfnum tækifærum allra til félagslegrar þátttöku í skipulögðu starfi fyrir börn og barnafjölskyldur með sérstakri áherslu á að ná til barna af erlendum uppruna. Með þátttöku í skipulögðu starfi, skilvirku utanumhaldi starfsfólks og jákvæðu viðmóti í öllu starfi er unnið að jákvæðum samskiptum, sterkri félagsfærni og vináttuþjálfun barna á aldrinum 7 - 15 ára. Lögð er áhersla á fræðslu, þjálfun og menntun alls starfsfólks sem starfar með börnum í Reykjanesbæ, þ.m.t. skólum, íþróttamannvirkjum, íþróttafélögum og tómstundahreyfingu, sérfræðingum sem starfa með börnum í viðkvæmri stöðu og starfsfólki velferðarsviðs í stuðningsþjónustu með börnum. Þannig er unnið að samfélagslegri heild Reykjanesbæjar í krafti fjölbreytileikans.

3. Kjarnahópur til vellíðunar og virkni (2019060209)

Inga Dóra Jónsdóttir félagsráðgjafi mætti á fundinn og kynnti verkefnið.

Verkefnið er unnið í samstarfi Reykjanesbæjar og Vinnumálastofnunar og lýtur að því að virkja þann hóp einstaklinga sem hefur notið þjónustu beggja aðila um langt skeið með það að markmiði að þeir verði aftur þátttakendur á vinnumarkaði.

Velferðarráð lýsir ánægju með verkefnið sem er mjög þarft. Jafnframt telur ráðið mikilvægt að sem fyrst verði tekin ákvörðun um atvinnuátak fyrir námsmenn í sumar líkt og gert var á síðasta ári þar sem allar líkur eru á að ástandið á vinnumarkaði verði áfram erfitt. Reynsla síðasta sumars af sumarstörfum námsmanna, m.a. á velferðarsviði, sýnir að slíkt átak er öllum til góðs.

4. Sterk framlína í krafti fjölbreytileikans (2021030184)

Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, deildarstjóri þjónustu og þróunar, mætti á fundinn og kynnti verkefnið og stöðu þess.

Verkefnið snýst um að bæta þjónustu og upplýsingagjöf í velferðarmálum til íbúa, með sérstakri áherslu á íbúa af erlendum uppruna. Upplýsingagjöf verði efld með því að þjálfa og styrkja starfsfólk í framlínu til að svara sem flestum erindum í fyrstu snertingu. Einnig er markmiðið að efla samstarf við opinberar stofnanir.

5. Fundargerð Samtakahópsins 11. febrúar 2021 (2021010500)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins febrúar 2021

6. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 25. febrúar 2021 (2021020791)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 8. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar

7. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir lagðar fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar

8. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2021010238)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í janúar 2021 fengu 148 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 22.528.743. Í sama mánuði 2020 fékk 121 einstaklingur greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 15.631.168. Fjöldi umsækjenda með samþykkta fjárhagsaðstoð er hinn sami í desember 2020 og janúar 2021.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í janúar 2021 fengu alls 267 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.659.646. Í sama mánuði 2020 fengu 217 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.000.876. Umsækjendum með samþykktan sérstakan húsnæðisstuðning fjölgar um 20 milli desember 2020 og janúar 2021.

Áfrýjunarnefnd

Í janúar 2021 voru 29 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 22 erindi voru samþykkt, 1 erindi var synjað, 5 erindum frestað og 1 erindi samþykkt að hluta og synjað að hluta.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. mars 2021.