400. fundur

11.08.2021 14:00

400. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 11. ágúst 2021 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac, Hanna Björg Konráðsdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Verkefni í sumarátaki námsmanna 2021 (2021060125)

a. Notendasamráð.

Aron Ingi Valtýsson og Ásdís Rán Kristjánsdóttir mættu á fundinn og kynntu niðurstöður könnunar sem gerð var meðal þjónustuþega velferðarsviðs um þeirra upplifun af þjónustunni. Verkefnið er unnið í tengslum við notendasamráð Velferðarstofu og Sterka framlínu í krafti fjölbreytileikans.

b. Samfélagsleg virkni.

Eydís Hentze Pétursdóttir og Einar Guðbrandsson mættu á fundinn og kynntu verkefni sem unnið hefur verið að til eflingar samfélagslegrar virkni einstaklinga sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar. Þar bar hæst aðstoð við atvinnuleit og samtal við vinnuveitendur auk fleiri verkefna.

c. Aðgengismál hjá sveitarfélaginu.

Dagmar Rós Skúladóttir mætti á fundinn og kynnti niðurstöður úttekta á aðgengismálum sem gerðar voru á stofnunum Reykjanesbæjar og einnig við verslanir, þjónustufyrirtæki og á gönguleiðum í sveitarfélaginu.

d. Regluverk velferðarsviðs.

Aron Örn Grétarsson og Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir mættu á fundinn og kynntu vinnu sem þau hafa unnið í sumar við að uppfæra regluverk velferðarsviðs í samræmi við breytingar á lagaumhverfi, s.s. breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarlögum, ný lög um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir og ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

2. Hefjum störf - virkniúrræði (2021080133)

Aðalheiður Hilmarsdóttir sérfræðingur á velferðarsviði mætti á fundinn og kynnti verkefnið Hefjum störf sem er samvinnuverkefni Reykjanesbæjar og Vinnumálastofnunar. Markmið verkefnisins er að aðstoða vinnumarkaðinn við að skapa störf og þannig aðstoða atvinnuleitendur enn frekar í þeirri vegferð að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði á ný.

3. Allir með! - staðan og framhaldið (2020010276)

Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mætti á fundinn. Hún fór yfir stöðu verkefnisins Allir með! og kynnti tillögur frá stýrihópi verkefnisins um helstu verkefni ársins 2022 ásamt minnisblaði þar sem óskað er eftir að gert verði ráð fyrir fjármagni til verkefnisins í fjárhagsáætlunum í framtíðinni. Stýrihópurinn leggur til að fjármagnið skiptist á fræðslusvið og velferðarsvið eftir umfangi verkefna og skiptingu þeirra á milli sviða.

Velferðarráð lýsir yfir ánægju með verkefnið Allir með! og telur mjög mikilvægt fyrir samfélagið að gert verði ráð fyrir fjármagni til verkefnisins í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins til framtíðar. Erindinu er vísað til fjárhagsáætlunarvinnu.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir er í stýrihópi verkefnisins og sat því hjá við afgreiðslu málsins.

4. Könnun vegna búsetu í félagslegu leiguhúsnæði (2021060118)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í sumar meðal leigjenda í félagslegu húsnæði hjá Reykjanesbæ um hvort leigjendur uppfylli skilyrði fyrir áframhaldandi búsetu í félagslega húsnæðiskerfinu.

Send voru út 154 bréf, 116 í gegnum Mitt Reykjanes og 38 í bréfpósti. Bréfunum var fylgt eftir með símtölum. Gögn eru frá 108 aðilum af 154. Svarhlutfall er 70%. Af þeim sem svöruðu uppfylla tæp 90% leigutaka skilyrði tekju- og eignamarka fyrir búsetu í félagslegu húsnæði. Hjá 12 leigjendum þarf að endurskoða forsendur leigusamninga auk þess sem það vantar gögn frá 46 leigjendum. Farið verður betur yfir stöðu þeirra einstaklinga sem ekki uppfylla lengur skilyrði fyrir búsetu í félagslegu húsnæði m.t.t. uppsagnar og leitað leiða til að afla gagna hjá þeim leigjendum sem ekki hafa skilað gögnum vegna könnunarinnar.

5. Þjónusta Rjóðursins við alvarlega langveik börn (2021070087)

Landspítalinn kynnir í bréfi dags 2. júlí 2021 um breytingar á starfsemi Rjóðursins frá og með næstu áramótum. Rjóðrið sinnir hvíldar- og endurhæfingarinnlögnum fyrir alvarlega langveik börn. Aukin þörf á þjónustu við veikasta hóp langveikra barna og einnig fyrir endurhæfingu barna eftir alvarleg veikindi leiðir til þess að frá og með næstu áramótum munu einungis börn sem ekki njóta þjónustu annars staðar, s.s. í skammtímavistunum, og þurfa veikinda sinna vegna að fá hvíldar- og endurhæfingarinnlagnir á 3. línu heilbrigðisstofnun fá dvalartíma í Rjóðrinu. Landspítalinn telur að þetta muni óhjákvæmilega hafa þau áhrif að aukin eftirspurn verði eftir þjónustu sveitarfélaga við þennan hóp barna og sendir framlagt bréf til að sveitarfélögin hafi ráðrúm til að undirbúa sig fyrir aukna þjónustuþörf við þennan skjólstæðingahóp.

Samkvæmt upplýsingum frá Rjóðrinu var þjónusta Rjóðursins síðast nýtt af einstaklingi í Reykjanesbæ árið 2018. Var þá um að ræða 4-5 sólarhringa þjónustu í mánuði sem hluta af heildstæðri stuðningsþjónustu héðan.

Fylgigögn:

Varðandi þjónustu Landspítala við alvarlega langveik börn

6. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2021010238)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í júní 2021 fengu 149 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 22.084.326. Í sama mánuði 2020 fengu 134 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 18.607.766. Umsækjendum með samþykkta fjárhagsaðstoð hefur fjölgað um 11,2% milli júnímánaðar 2020 og 2021.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í júní 2021 fengu alls 277 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals að upphæð kr. 3.785.155. Í sama mánuði 2020 fengu 227 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.044.856. Umsækjendum með samþykktan sérstakan húsnæðisstuðning fjölgar um 22% milli mánaðanna júní 2020 og júní 2021.

Áfrýjunarnefnd

Í júní 2021 voru 30 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 16 erindi voru samþykkt, 9 erindum synjað og 5 erindum frestað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:45. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 24. ágúst 2021.