434. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 15. ágúst 2024 kl. 13:00
Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birgitta Rún Birgisdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Birna Ósk Óskarsdóttir boðaði forföll og sat Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir fundinn í hennar stað. Eyjólfur Gíslason boðaði forföll og sat Birgitta Rún Birgisdóttir fundinn í hans stað.
1. Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR) - kynning (2024080152)
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Ásdís Rán Kristjánsdóttir, verkefnastjóri í velferðarþjónustu, sátu fundinn í þessu máli.
Soffía Hjördís Ólafsdóttir deildarstjóri HMFÞ (Heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir) á Vesturmiðstöð mætti á fundinn og kynnti starfsemi Vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkurborgar (VoR) sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefnavanda og geðvanda. Teymið veitir einstaklingsmiðaða ráðgjöf og stuðning á vettvangi.
2. Málefni heimilislausra - smáhús (2023070008)
Ásdís Rán Kristjánsdóttir, verkefnastjóri í velferðarþjónustu, Gunnar Kristinn Ottósson skipulagsfulltrúi og Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu mættu á fundinn.
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti niðurstöður grenndarkynningar vegna staðsetningar smáhúsa á Hákotstanga.
Eitt af fjölmörgum hlutverkum sveitarfélagsins er að leysa úr brýnum húsnæðisvanda fyrir okkar íbúa sem eru ekki fær um það sjálf. Til að greina þörfina sem er til staðar hefur starfsfólk velferðarsviðs unnið þarfagreiningu á stöðu heimilislausra í Reykjanesbæ. Sú vinna hefur verið til fyrirmyndar og er niðurstaðan sú að byggja þarf fleiri smáhús í sveitarfélaginu. Auk þess þarf að fara markvisst af stað með nýja þjónustu fyrir einstaklinga með miklar þjónustuþarfir. Ætlað er að slík þjónusta sinni helstu málefnum þessa viðkvæma hóps.
Varðandi staðsetningar smáhúsanna var farið af stað með að finna staðsetningu fyrir húsin og hanna smáhúsin með þarfir skjólstæðinga velferðarsviðs sem glíma við fjölþættan vanda í huga. Lagðar voru til nokkrar staðsetningar víðsvegar um sveitarfélagið og urðu Hákotstangar og Grófin fyrir valinu. Ákveðið var að byrja á Hákotstöngum.
Horft er til bresku hugmyndafræðinnar ,,Housing First” sem er aðferð til að hjálpa skjólstæðingum velferðarsviðs sem glíma við heimilisleysi með húsnæði og stuðningsþjónustu. Þar er aðgengi að varanlegu húsnæði í forgangi með sérsniðnum opnum stuðningi við íbúa þar sem áherslan er á að efla þau til virkni í samfélaginu.
Úrræði smáhúsa sem slík eru ekki ný úrræði. Þau hafa verið til staðar í Reykjanesbæ í nokkur ár og gefist nokkuð vel. Reykjavíkurborg hefur verið að fjölga slíkum úrræðum í borginni og hefur reynst vel að mestu leyti. Aðalatriðið er að íbúar okkar sem eiga við fjölþættan vanda að stríða fái öruggt skjól og samastað. Engin dæmi eru um að slík úrræði lækki fasteignaverð í viðkomandi hverfi. Hér erum við að slá verndarhendi yfir okkar viðkvæmasta hóp og vonumst til að þessi hópur upplifi í kjölfarið öryggi og skjól í sinni tilveru.
Þau sjónarmið sem fram koma í niðurstöðum grenndarkynningar eru vel skiljanleg og eðlileg í ljósi þess að hér er verið að byggja upp þjónustu við stækkandi hóp íbúa í sveitarfélaginu, þjónustu sem hefur verið lítið sýnileg og er mikilvægt að byggja upp af kostgæfni. Hægt er að taka undir þær ábendingar sem fram koma um að vegalengd í nærþjónustu og almenningssamgöngur er lengri en best væri á kosið en önnur atriði þóttu vega þarna upp á móti við val á staðsetningu, m.a. að góð gönguleið er að almenningssamgöngum og heilsugæsla fyrirhuguð á svæðinu. Áhersla er lögð á að það húsnæði sem er í byggingu fyrir þetta verkefni sé vistlegt og falli vel að umhverfinu. Varðandi þjónustu við þennan notendahóp er í undirbúningi að koma á nærþjónustu og ráðgjöf við íbúa smáhúsanna með áherslu á batahugmyndafræði og skaðaminnkandi nálgun.
Velferðarráð bendir íbúum á að hafa samband við starfsfólk velferðarsviðs ef spurningar vakna.
3. Sérstakur húsnæðisstuðningur (2024070580)
Tillaga að breytingum á sérstökum húsnæðisstuðningi sveitarfélagsins lögð fram. Þann 17. maí 2024 voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um húsnæðisbætur nr. 75/2016. Markmið lagabreytinganna er að styðja við nýgerða kjarasamninga til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði með því að hækka húsnæðisbætur og auka þannig ráðstöfunartekjur heimilanna og draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda. Til að lagabreytingar Alþingis skili sér að fullu til leigjenda sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi sveitarfélagsins er nauðsynlegt að gera breytingar á núgildandi reglum sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning.
Lagt er til að samþykkt verði breyting á 31. gr. reglna Reykjanesbæjar um félagsþjónustu sveitarfélagsins sem fjallar um fjárhæð og greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings á þann veg að samanlögð fjárhæð almennra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings verði kr. 93.885 í stað kr. 75.108. Hækkunin er til samræmis við hækkun almennra húsnæðisbóta um 25%. Einnig er lagt til að fjárhæðir frítekjumarka og eignamarka hækki í samræmi við breytingar á lögum um húsnæðisbætur nr. 75/2016. Það þýðir að tveir flokkar bætist við vegna tekjumarka, þ.e. þegar um er að ræða fimm og sex eða fleiri heimilismenn.
Lagt er til að breytingin taki gildi frá 1. júní 2024 í samræmi við breytingar á lögum um húsnæðisbætur nr. 75/2016. Ekki er gert ráð fyrir að þessi 25% hækkun hafi áhrif á fjárhagsáætlun ársins heldur er eingöngu verið að tryggja að hækkunin sem Alþingi samþykkti skili sér að fullu til leigjenda.
Velferðarráð leggur til að tillagan verði samþykkt og vísar málinu til bæjarráðs.
4. Dagdvalir aldraðra Reykjanesbæ (2024050055)
Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri stuðnings- og öldrunarþjónustu og Kristín M. Hreinsdóttir deildarstjóri dagdvala mættu á fundinn.
Tillaga að breytingum og sameiningu dagdvala Reykjanesbæjar lögð fram. Óskað er eftir því við bæjarráð að farið verði í hönnun húsnæðisins á jarðhæð og útivistarsvæði Nesvalla fyrir þær dagdvalir sem Reykjanesbær rekur í dag til að hægt verði að fullkanna möguleika á nýtingu Nesvalla fyrir sameiningu dagdvala Reykjanesbæjar.
Velferðarráð mælir með að tillagan verði samþykkt og vísar málinu til bæjarráðs.
5. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2024020127)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram mælaborð fyrir janúar til júní 2024 og tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í júní 2024.
Fjárhagsaðstoð
Í júní 2024 fengu 209 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 29.557.534 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali um 141.424 kr. á hvern einstakling. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð.
Í sama mánuði 2023 fengu 309 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 43.860.489 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali 141.943 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 119.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í júní 2024 fengu 274 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 4.196.178 kr.*
Í sama mánuði 2023 fengu 300 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.321. 890 kr.
*Breytingar á lögum um húsnæðisbætur tóku gildi 1. júní 2024 sem liður í aðgerðum stjórnvalda til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum á vinnumarkaði.
Áfrýjunarnefnd
Í júní 2024 voru haldnir 2 fundir í áfrýjunarnefnd og 10 erindi lögð fyrir nefndina. 6 erindi voru samþykkt, 2 erindum var synjað og afgreiðslu tveggja erinda frestað.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. ágúst 2024.