Stapaskóli í Innri Njarðvík, sem um 2ja ára skeið hefur starfað í bráðabirgðahúsnæði við Dalsbraut, hefur nú flutt starfsemi sína í fyrsta áfanga framtíðarhúsnæðis skólans. Undirbúningur að byggingu annars áfanga, sem mun hýsa íþróttahús og sundlaug, er hafinn og er stefnt að því að framkvæmdir við hann hefjist 2021. Þegar þeim áfanga er lokið hefst vinna við þriðja áfanga sem ætlaður er yngsta skólastiginu en í því eru börn frá 18 mánaða aldri.
Húsnæðið er byggt utan um nýstárlega hugmyndafræði í kennsluháttum enda hlýtur skólastarf alltaf að vera í þróun. Börn sem eru að hefja nám í 1. bekk Stapaskóla árið 2020 munu í fyrsta lagi koma út á vinnumarkaðinn árið 2036, miðað við skipulag skólamála á Íslandi í dag, þótt gera megi ráð fyrir að stór hluti þeirra verði lengur í námi, fari í einhvers konar framhaldsnám og jafnvel háskóla. Þau sem leggja það fyrir sig gætu því verið að koma út á vinnumarkaðinn árið 2045 – 2050. Hvernig verða störfin sem þau koma til með að sinna? Hvað þurfa þau að kunna? Hvaða tæki og tól mun þau þurfa að þekkja og umgangast? Mun gervigreind og tölutækni verða alls ráðandi? Hvað með skapandi greinar og nýsköpun? Líkamlegt atgervi og umhverfisvitund? Verða þau í einstaklingsbundnum verkefnum eða mun atvinnulífið byggjast á þverfaglegri nálgun og teymisvinnu?
Þessar og margar aðrar spurningar voru lagðar til grundvallar þegar forskrift að hönnun skólans var gerð og erum við mjög stolt af því hvernig til hefur tekist.
Skólalóðin
Umhverfis Stapaskóla er nú komin glæsileg skólalóð sem hefur einnig vakið mikla athygli. Segja má að með henni sé verið að setja ný viðmið um spennandi umhverfi skóla sem hvetur til hreyfingar og útiveru en er um leið fræðandi og skemmtilegt. Íbúar úr öllum hverfum hafa nýtt sér skólalóðina seinni hluta dags og um helgar og er það vel.
Stapaskóli verður opinn almenningi til skoðunar eina helgi seinna í vetur, þegar ástandið aðstæður í samfélaginu leyfa. Þangað til gilda strangar reglur um gestakomur og umgengni í skólum Reykjanesbæjar.
Kær kveðja,
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.