Erla Björg kynnti niðurstöður um geðheilsu unglinga sem koma á Vog.
Unglingar með ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og hegðunarröskun í vímuefnameðferð á Vogi
Erla Björg Birgisdóttir, sálfræðingur á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, flutti fyrirlestur á Haustráðstefnu SÁÁ og kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á geðheilsu unglinga sem koma á sjúkrahúsið Vog. Niðurstöður rannsóknarinnar lágu fyrir í nóvember 2010 og eru mjög afgerandi þrátt fyrir að úrtakið hafi ekki verið mjög stórt.
Ungmenni sem sækja vímuefnameðferð á sjúkrahúsinu Vogi glíma ekki aðeins við fíknsjúkdóm því þau sýna ýmis önnur geðræn einkenni. Stór hópur ungmenna greinist með einkenni hegðunarvanda sem taka verður tillit til í meðferðinni. Þetta hefur verið rannsakað í öðrum löndum og niðurstöður rannsóknar Erlu Bjargar eru í samræmi við niðurstöður svipaðra rannsókna sem hafa verið gerðar í öðrum löndum, t.d. á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum. Á unglingadeildinni á Vogi er tekið á móti ungmennum sem þurfa að sækja vímuefnameðferð og voru flest ungmennanna í rannsókninni á aldrinum 16-19 ára, um 40 talsins.
Stór hluti með hegðunarröskun
Það kom í ljós að stór hluti unglinganna í rannsókninni voru með einkenni hegðunarvanda. Undir hegðunarvanda er ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og hegðunarröskun. Á Vogi eru unglingarnir að kljást við fíknsjúkdóm en þeir eru líka að sýna mörg önnur geðræn einkenni og það þarf að taka tillit til þess í meðferð.
„Þetta er ekki einfalt. Það eru svo margir samverkandi þættir í þessu. Þegar veitt er meðferð við fíknsjúkdómum þá eru svo margar aðrar breytur sem þarf að taka tillit til. Þetta eru oft krakkar sem eru með ADHD, mótþróaþrjóskuröskun eða hegðunarröskun sem er alvarlegri angi af mótþróaþrjóskuröskun. Það þarf að nálgast þau á ákveðinn hátt og taka tillit til þess til að ná árangri með þau með fíknsjúkdóminn.“
Meðal þess sem Erla Björg skoðaði við gerð rannsóknarinnar voru sjúkraskrárgögn, en hluti af þeim var geðgreiningarviðtal (DISC) sem hefur verið lagt fyrir unglinga á Vogi. Í viðtalinu er m.a. verið að meta allar helstu raskanir hjá börnum og unglingum, s.s. kvíða, þunglyndi og ADHD. Viðtalið hefur einnig verið notað af geðlæknum á stofum. Erla Björg var með tvo klíníska hópa sem hún gat síðan borið saman, annars vegar hóp unglinga sem leita sér aðstoðar á stofu hjá geðlækni og svo unglinga á Vogi. Einnig voru teknar inn mælingar á geðrænum einkennum.