Bæjarsjóður skilar hagnaði
Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2011 var lagður fram í bæjarráði í gær og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Rekstur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar gekk vel á árinu 2011 og var rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði 1.345 milljónir króna sem er um 15,21% af tekjum. Rekstrartekjur voru 8,8 milljarðar króna en rekstrargjöld 7,2 milljarðar króna. Afskriftir voru 291 milljón króna.
Vextir og verðbætur langtímalána nema 892 milljónum króna en gengismunur langtímalána er reiknaður neikvæður um 788 milljónir kr. Sveitarfélagið greiðir fjármagnstekjuskatt til ríkisins upp á 290 milljónir króna.
Þrátt fyrir þessa háu fjármagnsliði skilar bæjarsjóður jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 33,3 milljónir króna sem er um 0,38% af tekjum.
Hreint veltufé frá rekstri er um 945 milljónir króna sem er 10,7% af tekjum og handbært fé frá rekstri er 57,8 milljónir króna.
Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs hækkar á milli ára úr 19,07 í 20,76%. Í samstæðunni er hreint veltufé frá rekstri 1,9 milljarður kr. og handbært fé frá rekstri rúmlega 1,3 milljarður kr.
Taprekstur á hafnarmannvirkjum
Taprekstur er á Reykjaneshöfn, sem m.a. rekur Helguvíkurhöfn, um 558 milljónir króna. Þar er um að ræða mikinn fjármagnskostnað vegna framkvæmda. Enn hefur ekki fengist stuðningur ríkisins við framkvæmdir í Helguvík sem ætti að nema um 1,2 milljörðum króna, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um og skýr fordæmi um stuðning ríkisins til annarra stórskipahafna. Vonast er til að það breytist á næsta ári. Þá er taprekstur á félagslegum íbúðum bæjarins (Fasteignir Reykjanesbæjar) um 173 milljónir króna.
Samstæðureikningur Reykjanesbæjar skilar tæplega 2,5 milljarða króna hagnaði fyrir fjármagnsliði en að teknu tilliti til þeirra er hann neikvæður um tæplega 654 milljónir krónur.
Eiginfjárhlutfall samantekins reiknings er 16,41%.
Skuldahlutfall lækkar hratt
Skuldahlutfall bæjarsjóðs, sem mælir heildarskuldir á móti rekstrartekjum ársins, að teknu tilliti til peningalegra eigna, hefur lækkað úr 275% árið 2008 í 207% árið 2011. Skuldahlutfall samstæðunnar (Bæjarsjóðs og fyrirtækja) hefur á sama tíma lækkað úr 310% í 230%. Bæjarsjóður skuldar aðeins eitt erlent lán að upphæð 1,4 milljarða króna. Stærstur hluti skulda eru framreiknaðar skuldir vegna leigu á fasteignum, sem greitt er af mánaðarlega, en í reikningi er það framreiknað út leigutíma í 22 ár.