atNorth fyrsta fyrirtækið til þess að verða Allir með vinnustaður
Nýverið varð atNorth fyrsta fyrirtækið til þess að koma inn í Allir með fjölskylduna þegar Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri atNorth og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri skrifuðu undir Allir með vinnustaðasáttmála.
Með sáttmálanum styrkir atNorth verkefnið og einsetur sér hlýlegt viðmót og alúð gagnvart samstarfsfélögum, fjölskyldum, vinum og öðru samferðafólki óháð aldri, uppruna, fötlun, tungumáli, kyni, kynhneigð, kynvitund, heilsufari, trúarbrögðum, skoðunum og öðru því sem máli getur skipt fyrir hvern og einn. Af þessu tilefni sagði Eva Sóley:
Hjá atNorth starfar fólk af níu mismunandi þjóðernum sem eru með starfsstöðvar víðsvegar um heiminn. Gildi Allir með er auðvelt að yfirfæra á vinnustaðina og styður vel við það sem fyrirtækið stendur fyrir nú þegar.
atNorth er gagnaver sem hefur starfsemi í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Stokkhólmi og Helsinki. atNorth leggur ríka áherslu á sjálfbærni í sínu starfi, þ.á.m. með virkri þátttöku í sjálfbærum verkefnum í nærsamfélögum starfsstöðva fyrirtækisins.
Um leið og Reykjanesbær þakkar atNorth kærlega fyrir að hugsa til sveitarfélagsins við val sitt á samfélagsverkefnum bjóðum við áhugasömum fyrirtækjum og stofnunum sem starfa í Reykjanesbæ að bætast í hóp Allir með vinnustaða.
Með þátttöku fyrirtækja og stofnana í Allir með er unnið að því að auka meðvitund samfélagsins á markmiðum verkefnisins og ábyrgð þess er deilt með samfélaginu öllu. Þannig vinnum við öll að því í sameiningu að börn hafi jöfn tækifæri til þess að vera með og tilheyra.