Meðalárangur barna í Reykjanesbæ á lesskimunarprófinu Læsi var 73,58%, sl. vor, en sagt er að börn sem ná 65% árangri á prófinu geti lesið sér til gagns. Þetta er besti árangur sem náðst hefur frá upphafi mælinga á prófinu hjá börnum í Reykjanesbæ. Um er að ræða könnunarpróf í lestri fyrir 2. bekk grunnskóla en reglulega er fylgst með lestrargetu nemenda á landinu með skimunarprófum.
Börn í Reykjanesbæ eru nú að ná sambærilegum eða betri árangri og börn í Reykjavík og má geta þess að meðalárangur skóla í Reykjavík var á sama tíma 73.40% sem er besti árangur sem náðst hefur í Reykjavík.
Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar segir þessar niðurstöður sérstaklega ánægjulegar vegna þess að árangur á lesskimunarprófum gefur vísbendingar um árangur á samræmdum prófum í íslensku og því væntingar um að þessir nemendur muni standa sig vel á samræmdum prófum. Aðspurður um hverju megi þakka þennan góða árangur segir Gylfi Jón að um tvær meginorsakir sé að ræða: Undanfarin ár hafi leikskólar Reykjanesbæjar lagt aukna áherslu á að kenna lestur með aðferðum leikskólans og það skili sér í því að börn séu betur á veg komin í lestri við upphaf grunnskólanáms. Börnin séu því einfaldlega betri í lestri við upphaf skólagöngu en áður, þökk sé metnaðarfullu starfi leikskólanna. Hin meginskýringin er að mikil vakning er meðal kennara og foreldra í Reykjanesbæ um lestur og mikill metnaður og áhugi sé á að bæta árangur nemenda í lestri. Kennarar viti nákvæmlega hvað þarf til að ná góðum árangri, séu í góðri samvinnu við foreldra um lesturinn og eru að uppskera samkvæmt því.