23. mars er dagur Norðurlanda. Á þessum degi árið 1962 hittust fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna í höfuðborg Finnlands til að skrifa undir samning um náið og skuldbindandi samstarf á fjölmörgum sviðum.
Samningurinn, Helsinkisáttmálinn, fjallar um samstarf Norðurlandanna á sviði réttarfars, menningarmála, félagsmála, efnahagsmála, samgangna og umhverfisverndar. Helsinkisáttmálinn kveður á um fjölmörg gagnkvæm réttindi Norðurlandabúa sem við höfum um áratugaskeið vanist að taka sem sjálfsöguðum hlut við dvöl á hinum Norðurlöndunum, í ferðum eða viðskiptum milli landanna. Í sáttmálanum segir m.a. að við setningu laga skuli ríkisborgarar annarra Norðurlanda njóta sama réttar og ríkisborgarar viðkomandi lands.
Opinberar stofnanir, höfuðborgirnar, sveitarfélög, fyrirtæki, mennta- og menningarstofnanir, fjölmiðlar og félagasamtök hafa nýtt þennan dag til að beina sjónum sínum að því sem norrænt er, vináttu og menningarsögulegu sambandi þjóðanna og til að vekja athygli á því sem norrænt er í starfsemi þeirra á hverjum tíma. Af nógu er að taka, enda er norrænt samstarf og norræn menningaráhrif, eins og rauður þráður í öllum norrænu löndunum - Íslandi, Danmörk, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.
„Norræni dagurinn“
Dagur Norðurlanda á sér þó lengri sögu, hann hefur færst til og tekið miklum breytingum í áranna rás.
Árið 1936 var „Norræni dagurinn” haldinn hátíðlegur 27. október í öllum norrænu ríkjunum að frumkvæði Norrænu félaganna. Í skólum á Íslandi hófst dagurinn á því að börnin voru látin hlusta á klukknahringingar frá dómkirkjunum í Niðarósi, Uppsölum og Helsinki. Berggrav biskup í Noregi flutti síðan ræðu í útvarpið. Þetta hefur eflaust verið skólabörnunum til mikillar gleði og þroskaauka. Síðar um daginn voru fluttar í útvarpi ræður konunga Norðurlanda og forseta Finnlands. Norðurlandafánar voru dregnir á stöng um allan bæinn og ýmislegt fleira var gert til hátíðarbrigða og skemmtunar. Einna markverðast var það að svo að segja öll blöð sem þá voru gefin út - og þau voru mörg - fjölluðu ítarlega um norræna daginn og norræna samvinnu.
Ráðgert var að halda Norræna daginn á fimm ára fresti eftir þetta. Vegna heimsstyrjaldarinnar tókst ekki að standa við þá áætlun og næst var haldið upp á daginn árið 1951. Þá var hann að vísu færður til og ákveðið að hafa hann framvegis alltaf síðasta laugardag í september. Megináherslan var á útvarpsdagskrá í öllum löndunum. Kóngarnir fengu nú ekki að halda ræðu heldur forsætisráðherrarnir og flutt var norræn tónlist og fleira skemmtilegt barst landsmönnum á öldum ljósvakans. Biskupar og kirkjuklukkur komust þó ekki að í þetta sinn. Einnig var norræn dagskrá í skólum.