Dreifing á nýjum tunnum heldur áfram og fyrsta losun á lífrænum eldhúsúrgangi
Dreifing á nýjum tunnum við heimili mun halda áfram á næstu dögum og stendur til að dreifa í hverfinu sem merkt er grænt á kortinu hér fyrir neðan.
Samhliða nýjum tunnum verður körfum og bréfpokum einnig dreift til íbúa fyrir lífrænan eldhúsúrgang og er karfan sérstaklega ætluð inn í eldhús og hönnuð þannig að vel lofti um innihaldið. Í fjölbýlishúsum verða körfur og pokar settir inn í stigagangana og geta íbúar sótt sér eina körfu og eitt búnt fyrir sitt heimili. Bréfpokarnir eru 80 í hverju búnti og því ætti eitt búnt að duga inn á hvert heimili. Þegar pokarnir svo klárast verða þeir áfram aðgengilegir íbúum þannig að engan ætti að vanta poka til að flokka í eldhúsinu.
Þær tunnur sem eru nú þegar á staðnum verða nýttar áfram og merktar viðeigandi flokki. Íbúar eru hvattir til þess að þrífa tunnurnar eftir næstu losun til þess að tryggja hreinleika og þar með gæði endurvinnsluefnanna sem safnað verður.
Við hvetjum íbúa til þess að taka vel á móti nýju tunnunum og koma þeim vel fyrir á sínu heimili.
Nánar um flokkun úrgangs og sorphirða
Sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi
Nú hefur fyrsta losun á lífrænum eldhúsúrgangi á Suðurnesjum farið fram og er óhætt að segja að íbúar á Suðurnesjum hafi farið vel af stað. Í þessari fyrstu losun var blandaður úrgangur og matarleifar sóttur og voru matarleifarnar um 30% af heildarþyngdinni. Matarleifarnar fara svo í gas- og jarðgerðarstöðina GAJA þar sem þeim er umbreytt í moltu og metangas.
Við þökkum íbúum fyrir frábæra byrjun og hlökkum til enn meiri flokkunar ♻️