Bleiklýst Ráðhús í bleikum október.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur tilkynnt að „viðræðum við kröfuhafa“ sé lokið enda hefur tekist að ná samkomulagi við nær alla um margvíslegar aðgerðir sem skila munu sveitarfélaginu lækkun skulda og skuldbindinga til svo samstæða Reykjanesbæjar nái undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrir árslok 2022.
Ekki allar skuldir taldar umsemjanlegar
Þegar endurskipulagning efnahags Reykjanesbæjar hófst haustið 2014 þurftu nýir stjórnendur nokkurn tíma til að átta sig á samsetningu skulda og skuldbindinga sveitarfélagsins, sem í heildina voru um 44 milljarðar króna, og greina hverjar þeirra væru að einhverju eða öllu leyti umsemjanlegar. Skuldasafnið var ekki bara stórt og umfangsmikið heldur einnig fjölbreytt og flókið. Sveitarfélagið og stofnanir þess skulduðu starfandi bönkum, þrotabúi fallins banka, lífeyrissjóðum, Íbúðalánasjóði, Lánasjóði sveitarfélaga, fyrirtækjum og fleirum margvísleg lán og skuldbindingar. Kröfuhafarnir voru því ekki einn einsleitur hópur heldur margir minni aðilar með mismunandi hagsmuni og kröfur þeirra misvel tryggðar, sumar voru tryggðar með veði, t.d. fasteignum, landi, og útsvari. Á meðal þeirra krafna sem EKKI voru taldar umsemjanlegar voru t.d. lífeyrisskuldbindingar, skattaskuldbindingar og lán frá Lánasjóði sveitarfélaga sem er með veðum í útsvari. Niðurstaðan varð svo sú að um það bil fimmtungur skuldanna væri ekki umsemjanlegur eða um 9 milljarðar.
Þurftum að lækka skuldir og skuldbindingar um 6 milljarða
Fyrsta skrefið var að ráðast í aðgerðir til þess að sýna fram á að sveitarfélagið sjálft tryggði ráðdeild og hagkvæmni í rekstri. Sú aðgerðaráætlun fékk nafnið Sóknin og var kynnt íbúum í október 2014. Sóknin leiddi jafnframt fram hvernig sveitarfélagið gat staðið skil á sínum skuldbindingum eftir að ráðist var í aðgerðir í rekstri. Þegar þessari vinnu var lokið var hafist handa við að greina hvort og þá hve mikilli lækkun skuldbindinga Reykjanesbær þyrfti að ná fram til að geta staðið við sitt í náinni framtíð. Niðurstaðan varð sú að með einum eða öðrum hætti þyrfti að lækka skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins um ríflega 6 milljarða króna fyrir árslok 2022, umfram greiðslugetu, til þess að standast lögbundið 150% skuldaviðmið. Hvernig það yrði gert var verkefni sem samninganefnd Reykjanesbæjar stóð frammi fyrir. Fyrirfram var ljóst að kröfuhafar myndu ekki sætta sig við meiri eftirgjöf en sveitarfélagið gæti sannarlega sýnt fram á að nauðsynleg væri enda töldu lánveitendur að fimmta stærsta sveitarfélag landsins væri tryggur lántakandi og engin fordæmi fyrir því að fella þyrfti niður eða lækka kröfur til opinberra lántakenda eins og Reykjanesbæjar. Það voru heldur engin fordæmi fyrir því að sveitarfélag, hvað þá ríkið, færi fram á niðurfellingu eða lækkun skulda með sama hætti og samninganefnd Reykjanesbæjar fór fram á við kröfuhafa. Það tók því einhverja mánuði fyrir alla aðila að meðtaka, skilja og sætta sig við alvarleika málsins.
Lækkun höfuðstóls hafnað
Þegar viðræður hófust af alvöru fór Reykjanesbær fyrst fram við þá kröfuhafa, sem áttu umsemjanlegar kröfur, að höfuðstóll þeirra yrði lækkaður. Það reyndist erfitt fyrir þá að samþykkja af fyrrgreindum ástæðum. Þá var farið í að skoða aðrar leiðir s.s. skilmálabreytingar, lækkun vaxta, styttingu leigutíma, afhendingu eða sölu eigna o.s.frv. Vorið 2016 voru einnig samþykkt lög á Alþingi um almennar íbúðir sem gerðu sveitarfélaginu kleift að færa áhvílandi lán vegna félagslega íbúðakerfisins undan ábyrgð þess og yfir í svokallaða húsnæðissjálfseignarstofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessar fjölþættu aðgerðir urðu til þess að bæjarstjórn Reykjanesbæjar gat sett saman trúverðuga aðlögunaráætlun sem sýndi fram á hvernig sveitarfélagið áformaði að ná undir 150% skuldaviðmið fyrir lok árs 2022, eins og fjármálareglur sveitarstjórnarlaga gera kröfu um. Sú áætlun var samþykkt í bæjarstjórn þann 18. apríl 2017 og staðfest af eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga þann 24. apríl 2017. Síðan þá hefur mikil vinna farið í að kynna forsendur hennar fyrir kröfuhöfum og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Þann 14. september síðastliðinn samþykkti svo bæjarráð tillögu að bréfi til kröfuhafa þar sem gerð er grein fyrir stöðunni og hvernig Reykjanesbær hyggst ganga frá og breyta kröfum og lánasamningum í samræmi við samþykkta aðlögunaráætlun og undangengnar viðræður við kröfuhafa. Ákvörðun bæjarráðs var síðan samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar miðvikudaginn 20. september sl. þrátt fyrir að einn kröfuhafa hafi aðeins samþykkt 2 af 3 atriðum sem vörðuðu skilmálabreytingar lána lífeyrissjóðanna til Reykjaneshafnar. Með því var bæjarstjórn að segja; „Við teljum að lengra verði ekki komist og viljum ljúka þessari vinnu.“ Næstu skref eru þau að næstu vikurnar munu bæjaryfirvöld í samvinnu við kröfuhafa ganga frá skjölum og lánasamningum í samræmi við forsendur aðlögunaráætlunar en til lengri tíma mun svo sú ábyrgð hvíla á bæjaryfirvöldum að halda samþykkta aðlögunaráætlun í hvívetna svo hún gangi upp.
Helstu þættir endurskipulagningarinnar
Helstu þættir endurskipulagningar efnahags Reykjanesbæjar eru í fullu samræmi við þá áætlun sem fékk nafnið Sóknin og kynnt var á fjölmennum íbúafundi í Stapa þ. 29. okt. 2014:
Með hækkun útsvars og fasteignaskatts, skv. sérstöku samkomulagi og heimild innanríkisráðherra, tókst að auka tekjur sveitarfélagsins. Um leið var farið í viðamikla endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri. Þetta tvennt; auknar tekjur og lækkun gjalda, skilaði sér í aukinni framlegð. Á sama tíma hefur fjölgun íbúa Reykjanesbæjar verði fordæmalaus og langt umfram allar áætlanir svo tekjur hafa aukist verulega án þess að útgjöld hafi hækkað að sama skapi.
- 2. Fjárfestingum í nýjum inniviðum haldið í lágmarki
Fá sveitarfélög hafa fjárfest meira í innviðum undanfarin áratug en Reykjanesbær. Eignir pr. íbúa eru óvíða meiri en þessum fjárfestingunum hafa líka fylgt miklar lántökur og skuldir. Því hefur fjárfestingum í nýjum innviðum nú verið stillt í hóf næstu árin og aðeins ráðist í það allra nauðsynlegasta s.s. fjölgun rýma í grunn- og leikskólum. Stærsta fjárfesting næstu ára verður bygging nýs skóla í Dalshverfi í Innri Njarðvík sem áætlað er að muni kosta 4-5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir þeirri fjárfestingu í aðlögunaráætluninni.
- 3. B-hluta fyrirtæki og stofnanir gerð sjálfbær
B-hluti bæjarsjóðs Reykjanesbæjar hýsir m.a. nokkur fyrirtæki og stofnanir. Má þar m.a. nefna eignarhlut Reykjanesbæjar í HS Veitum, Fasteignir Reykjanesbæjar, sem rekur m.a. um 200 félagslegar íbúðir auk 30 íbúða fyrir eldri borgara, og rekstur Reykjaneshafnar þ.m.t. Helguvík. Talsvert fé hefur árlega runnið úr grunnrekstri sveitarfélagsins, sem vistaður er í A-hluta bæjarsjóðs, í taprekstur sumra þessara fyrirtækja og stofnanna B-hlutans og hefur verið unnið skipulega að því að gera þessi fyrirtæki sjálfbær. Þannig er áætlað að með nýlegri, bráðnauðsynlegri hækkun húsaleigu í félagslega kerfinu muni jafnvægi nást í rekstri Fasteigna Reykjanesbæjar, og þar með þurfi ekki að bæta hallarekstur félagslega kerfisins með fjárveitingum úr grunnrekstri A-hluta. Lengra er í land að jafnvægi náist í rekstri Reykjaneshafna. Því má áfram búast við að A-hluti bæjarsjóðs muni þurfa að koma að og styðja rekstur hafnarinnar næstu árin amk. á meðan ekki hefur tekist að tryggja nægar tekjur af skipaumferð um Helguvík svo höfnin geti staðið við sínar skuldbindingar.
- 4. Samningar við kröfuhafa
Helstu niðurstöður samningaviðræðna við kröfuhafa eru eftirfarandi:
Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf., sem á nær allt húsnæði sem Reykjanesbær seldi á sínum tíma en leigir til baka fyrir stofnanir sínar, verður skipt upp í 2 félög. Í öðru félaginu verða eignir sem hýsa grunnþjónustu sveitarfélagsins s.s. grunnskólar, leikskólar, íþróttahús o.fl. Gerður verður nýr leigusamningur við félagið og kröfuhafa þess til 26 ára, eða til ársloka 2038, og þegar hann hefur verið greiddur upp mun Reykjanesbær eignast fasteignirnar á ný. Í hitt félagið verða færðar eignir sem tilheyra EKKI lögboðinni grunnþjónustu sveitarfélagsins og leigutími þeirra styttur verulega eða úr 26 árum í um 5 og hálft ár, eða fram á mitt ár 2023. Þar með lækkar leiguskuldbinding sveitarfélagsins um 2 milljarða króna. Eignirnar sem um ræðir eru Hljómahöll, Hafnargata 88, dráttarbrautin í Grófinni, Golfskálinn í Leiru, Iðavellir 7, Þórustígur 3 og Íþróttaakademían. Komi til þess að skuldaviðmið Reykjanesbæjar verði hærra en 150% í árslok 2022 á Reykjanesbær sölurétt á öllu hlutafé í síðastnefnda félaginu til kröfuhafa. Hins vegar ber Reykjanesbæ að framlengja leigusamninginn vegna eignanna til ársloka 2038 sé til þess svigrúm innan skuldaviðmiðs sveitarfélagsins.
Skuldir Reykjaneshafnar við fjölmarga lífeyrissjóði, vegna framkvæmda og uppbyggingar í Helguvík, verða endurfjármagnaðar. Þessi lán bera í dag rúma 6% vexti en með nýju láni frá Lánasjóði sveitarfélaga munu vextir lækka um helming. Við það munu skuldir og skuldbindingar lækka um 1.000 milljónir til ársins 2022.
Auk lífeyrissjóðanna skuldar Reykjaneshöfn bönkunum talsverðar fjárhæðir, m.a. með veði í lóðum í Helguvík. Samningur við bankanna kveður á um að 70% af kröfunum verða endurfjármagnaðar og 30% greiddar með afhendingu lóða sem bankarnir geta svo selt ef ekki tekst að greiða lánin að fullu. Þessi gjörð lækkar skuldbindingu Reykjaneshafna, og þar með samstæðu Reykjanesbæjar, um 300 milljónir árið 2022.
Þriðji stærsti hluti endurskipulagningarinnar er svo færsla félagslega húsnæðiskerfisins yfir í húsnæðissjálfseignarstofnun (hses) eins og lög um Almennar íbúðir frá 2016 heimila. Við það munu skuldir að upphæð 2,6 milljarða færast undan ábyrgð sveitarfélagsins og yfir til nýrrar sjálfseignarstofnunar sem fengið hefur nafnið Almennar íbúðir hses.
Að lokum eru svo nokkrar smærri aðgerðir og sala eigna sem samtals munu færa sveitarfélaginu nokkur hundruð milljón króna ávinning.
Framangreindar aðgerðir og samningar skila um 6 milljarða lækkun á skuldum og skuldbindingum sveitarfélagsins til ársins 2022, eins og lagt var upp með í þessari vegferð, án þess að nokkur kröfuhafa hafi þurft að afskrifa kröfur. Þetta þýðir að við störfum nú samkvæmt aðlögunaráætlun sem skilar sveitarfélaginu undir lögboðið 150% skuldaviðmiði
Að lokum
Eins og lesendur sjá hér að framan hefur endurskipulagning efnahags Reykjanesbæjar staðið yfir í 3 ár og margir komið að þeirri vinnu. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum starfsmönnum, ráðgjöfum, eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og viðsemjendum okkar fyrir gott samstarf. Nú mun reyna á stjórnendur og bæjaryfirvöld sveitarfélagsins að fylgja aðlögunaráætluninni og láta ekki freistast þó stutt sé til næstu sveitarstjórnarkosninga. Það eru 5 ár eftir til ársins 2022 og þau verða fljót að líða.
Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar