Tölvuteikning af nýju húsnæði BYKO og Krónunnar. Tölvuteikning/Aðsend
Fyrsta skóflustungan að 10 þúsund fermetra verslunarhúsnæði fyrir Krónuna og Byko við Fitjabraut 5 í Reykjanesbæ var tekin föstudaginn 6. október.
Þau Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, Sigurður B. Pálsson forstjóri BYKO og Guðmundur H. Jónsson, stjórnarformaður Smáragarðs, tóku í sameiningu fyrstu skóflustunguna að byggingunni að viðstöddum fulltrúum Reykjanesbæjar og þeirra fyrirtækja sem að framkvæmdinni koma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Smáragarði, sem byggir húsnæðið.
Stefnt er á að taka húsið í notkun árið 2025 og mun það hýsa Krónuna og BYKO auk þess sem aðrir leigutakar munu koma inn á seinni stigum. Reykjanesbær tekur þessari uppbyggingu fagnandi, segir Kjartan Már, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Gríðarlega stórt skref
„Við munum einnig bjóða upp á „take-away“ staði og rétti inni í versluninni líkt og í öðrum stærri verslunum Krónunnar, ásamt því að gera viðskiptavinum kleift að panta sínar matvörur heim eða sækja þær í verslunina í gegnum Krónuappið,“ er haft eftir Guðrúnu framkvæmdastjóra Krónunnar.
Sigurður forstjóri BYKO segir að um gríðarlega stórt skref og spennandi verkefni sé að ræða fyrir starfsemi BYKO á Suðurnesjum.
5.700 af þeim 10.000 fermetrum húnsæðisins verða nýttir undir starfsemi BYKO. Um 1.700 fermetra rými verður laust í húsinu sem verður leigt út í einu lagi eða í tveimur til þremur smærri rýmum.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar, Sigurður B. Pálsson forstjóri BYKO og Guðmundur H. Jónsson stjórnarformaður Smáragarðs tóku í sameiningu fyrstu skóflustunguna að byggingunni. Ljósmynd/Aðsend