Íbúafjöldi í Reykjanesbæ er nú þegar að ná þeirri tölu sem áætlað var að yrði fjöldinn í lok þessa árs. Íbúar voru 14.653 í lok apríl sl. en gert var ráð fyrir í hóflegri áætlun að íbúafjöldi í lok árs 2014 yrði 14.655, eða tveimur fleiri en nú þegar er orðið í lok apríl. Í lok síðasta árs voru íbúar alls 14.527.
Mest íbúafjölgunin á sér stað í nýju hverfunum í Innri Njarðvík, Tjarnahverfi og Dalshverfi. „Hér er talsvert um ungar fjölskyldur að setjast að og athyglisvert að jafnvel þótt önnur fyrirvinna heimilisins sæki vinnu í Reykjavík, velja menn að búa hér“, segir Árni Sigfússon bæjarstjóri. „Það er mjög ánægjulegt fyrir samfélagið enda fögnum við nýjum íbúum og bjóðum þau hjartanlega velkomin til okkar“.