Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2023 til og með 2026 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi nr. 642 þann 6. desember 2022 og var fjárfestingaáætlun fyrir sama tímabil samþykkt samhliða.
Forsendur fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar fyrir árin 2023 til og með 2026 eru að mestu leyti byggðar á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Drög að fjárhagsáætlun var lögð fyrir bæjarráðsfund þann 10. nóvember sem var vísað til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi 15. nóvember. Gerðu þau drög ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í A hluta sem nemur 233 m.kr. og í samstæðu A og B hluta 925 m.kr.
Nokkrar breytingar urðu bæði á tekjum og gjöldum í A hluta á milli fyrri umræðu og þeirri seinni og ber þar helst að nefna að ákveðið var að fara af stað með hvatagreiðslur fyrir 4-5 ára íbúa Reykjanesbæjar sem áætlað er að kosti 7 m.kr., kaup á sláttuvél og kerru undir hana til samnýtingar íþróttafélaganna að fjárhæð 10 m.kr., kaup á fjölnota fimleikadýnu að fjárhæð 5. m.kr. til að auka gæði iðkunar og eins að gera félaginu kleift að halda mót í fjáröflunarskyni. Á móti var áætlun útsvars hækkuð þar sem útkomuspá útsvars hefur hækkað í kjölfar þess að á haustmánuðum hefur dregið töluvert úr atvinnuleysi á svæðinu.
Leiðir það til jákvæðrar rekstrarniðurstöðu á A hluta að fjárhæð 233 m.kr. og jákvæðrar rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 925 m.kr. í samstæðu A og B hluta á árinu 2023.
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar um fjárheimildir ársins 2023 eru:
- Tekjur samstæðu (A+B hluti) verða 32,5 milljarða.kr.
- Tekjur bæjarsjóðs (A hluti) verða 21,2 milljarðar.kr.
- Gjöld samstæðu (A+B hluti) verða 25,8 milljarða.kr.
- Gjöld bæjarsjóðs (A hluti) verða 18,9 milljarða.kr.
- Framlegð samstæðu (A+B hluti) verður 6,8 milljarða.kr.
- Framlegð bæjarsjóðs (A hluti) verður 2,3 milljarða.kr.
- Afskriftir samstæðu (A+B hluti) verða 2,2 milljarða.kr.
- Afskriftir bæjarsjóðs (A hluti) verða 806 m.kr.
- Rekstrarniðurstaða samstæðu (A+B hluti) árið 2023 er jákvæð um 925 m.kr.
- Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs (A hluti) árið 2023 er jákvæð um 233 m.kr.
- Eignir samstæðu í lok árs 2023 verða 79,4 milljarða.kr.
- Eignir bæjarsjóðs í lok árs 2023 verða 42,6 milljarða.kr.
- Skuldir og skuldbindingar samstæðu í lok árs 2023 verða 47,5 milljarða.kr.
- Skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs í lok árs 2023 verða 28,5 milljarða.kr.
- Veltufé frá rekstri samstæðu árið 2022 er 5,3 milljarða.kr.
- Veltufé frá rekstri bæjarsjóðs árið 2022 er 2,1 milljarða.kr.
Fjárfestingar á árinu 2023:
Gert er ráð fyrir að grunnfjárfesting eignasjóðs verði 550 m.kr. Einnig er gert ráð fyrir að á árinu 2023 verði haldið áfram með byggingu íþróttahúss og sundlaugar við Stapaskóla sem hófst á árinu 2021 fyrir 1.550 m.kr., uppbyggingu á Myllubakkaskóla fyrir 1.000 m.kr. og byggður verði nýr leikskóli í Dalshverfi III sem væri í stakk búinn til að taka við 50-60 börnum um haustið 2023.
Gert er ráð fyrir að grunnfjárfesting fráveitu verði 150 m.kr., fjárfestingar Reykjaneshafnar 343 m.kr., framlag til byggingu nýs hjúkrunarheimilis 100 m.kr., og Tjarnargata 12 ehf. leggi í 150 m.kr. kostnað í hönnun og hefji fyrsta fasa á breytingum á ráðhúsi Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12.
Helstu áherslur og verkefni á árinu 2023:
- Hvatagreiðslur fyrir 4-5 ára börn verður í fyrsta sinn í boði á árinu 2023
- Nýr leikskóli byggður í Dalshverfi III og áætlað að taka á móti 50-60 börnum um haustið 2023
- Framkvæmdir við 6 deilda leikskóla í Hlíðarhverfi hefjast að hálfu verktaka sem mun skila byggingunni til Reykjanesbæjar
- Klára byggingu íþróttamiðstöðvar við Stapaskóla með viðurkenndum keppnisvelli fyrir íþróttir innanhúss ásamt sundlaug
- Áframhaldandi vinna við að koma Myllubakkaskóla í starfhæft ástand sem mun taka nokkur ár
- Nýr vaktturn í Sundmiðstöðinni til að auka öryggi sundlaugagesta
- Unnið að viðgerðum á húsnæði sem ekki er í notkun vegna t.a.m. rakaskemmda.
- Unnið verður að byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í samvinnu við ríkið
- Unnið verður að innleiðingu stafrænna lausna í gegnum samstarfsvettvang sveitarfélaganna og hjá Reykjanesbæ
- Vinna við byggingu nýs hjúkrunarheimilis í samvinnu við ríkið heldur áfram
- Lokið við mótun markaðsstefnu
- Sjálfbærnifulltrúi mun fylgja eftir og innleiða umhverfis- og loftlagsstefnu
- Gæðastjóri mun halda áfram með innleiðingu og fræðslu á barnvænu sveitarfélagi í samstarfi við UNICEF
- Áfram verður unnið að heilsustígagerð og stígar kláraðir á Ásbrú
- Fjármunir settir í uppbyggingu skólalóða
- Lyfta sett í 88 húsið til að auka nýtingu hússins
- Aukinn kraftur í gróðursetningu trjáa og skógrækt sem liður í kolefnisjöfnun
- Haldið verður áfram með uppbyggingu rafhleðslustöðva fyrir almenning til að styðja við orkuskipti í samgöngum
Nánari upplýsingar veitir bæjarstjóri, Kjartan Már Kjartansson
(kjartan.m.kjartansson@reykjanesbaer.is)