Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var lögð fram til fyrri umræðu í kvöld.
Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði um 730,4 m.kr. fyrir bæjarsjóð (A-hluta) og 3.479,3 m.kr. fyrir samstæðu.(A+B hluta).
Rekstrarafgangur bæjarsjóðs (A-hluta), að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða, verður um 23,4 m.kr.
Stærstu fyrirtæki og stofnanir sem falla undir B-hluta eru: Reykjaneshöfn, Fasteignir Reykjanesbæjar ehf., og HS Veitur hf. Þrátt fyrir góðan rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði er áfram gert ráð fyrir að mikill fjármagnskostnaður falli sérstaklega á Reykjaneshöfn og er því áætlað að halli samstæðu, að teknu tilliti til fjármagnsliða, verði um 89,4 m.kr og er áætluð lækkun halla samstæðunnar frá fyrra ári um 375 m.kr.
Reksturinn skilar bæði góðu veltufé og handbæru fé.
Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs er áætlað 23,75% og fyrir samstæðu 18,78%. Veltufjárhlutfall er áætlað 1,13 fyrir bæjarsjóð og í 1,87 fyrir samstæðu.
Veltufé frá rekstri er áætlað um 737,9 m.kr. fyrir bæjarsjóð sem er 7% af tekjum og um 2.704,5 m.kr. fyrir samstæðu sem er 17% af tekjum.
Handbært fé frá rekstri fyrir bæjarsjóð er áætlað 797,2 m.kr. og fyrir samstæðu 2.825,8 m.kr.
Eignir á íbúa eru áætlaðar 2.206 þús.kr. fyrir bæjarsjóð og 3.410 þús.kr. fyrir samstæðu.
Skuldir á íbúa eru áætlaðar 1.682 þús.kr. fyrir bæjarsjóð og 2.770 þús.kr. fyrir samstæðu.
Útsvarsprósenta verður áfram 14,48%. Álagningarprósentur fasteignagjalda verða áfram óbreyttar. Litlar breytingar eru á gjaldskrá sem helst taka mið af verðlagsþróun. Áfram er ókeypis í sund fyrir börn og ókeypis almenningssamgöngur í bænum.
Bókanir vegna framlagðrar fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar við fyrri umræðu
Bókun Samfylkingar:
Fjárhagsáætlunin Reykjanesbæjar fyrir árið 2014 er einkennandi fyrir stefnuleysi sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Hún einkennist um of af kyrrstöðu, málaflokkar einkennast af stefnuleysi og skortur á stefnumótun mjög áberandi. Ferðaþjónustan, íþróttahreyfingin og menningarmálin óbreytt og viðhald í lágmarki. Allir gjaldaliðir í hámarki og íbúum ekki hlíft þrátt fyrir mögur ár og atvinnuleysi. Eignasölur upp á marga milljarða á liðnum árum duga ekki til að lækka álögur á íbúa.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru á móti því að auka álögur á íbúa Reykjanesbæjar með því að hækka þjónustugjöld eins og t.d. leikskólagjöld, gjald fyrir skólamáltíðir, tónlistarskóla og frístundaskóla um allt að 5% árið 2014 eins og lagt er til í fjárhagsáætlun 2014.
Rekstrarárin 2013 og 2014 nýtur Reykjanesbær um 3-400 milljón króna afsláttar af leigugreiðslum bæjarins sem hækka aftur í milljarð árið 2015.
Við viljum nýta þetta tímabundna svigrúm í rekstri bæjarins m.a. til þess að hlífa íbúum Reykjanesbæjar við gjaldskrárhækkunum sem hafa verið töluverðar undanfarin ár.
Bókun Sjálfstæðismanna:
Til máls tóku Kristinn Þ. Jakobsson, Eysteinn Eyjólfsson og Böðvar Jónsson og Árni Sigfússon er lagði fram eftirfarandi bókun meirihlutans:
Eins og fram hefur komið við framlagningu fjárhagsáætlana sveitarfélaga í landinu eru þjónustugjöld Reykjanesbæjar lág og afar litlar hækkanir á milli ára. Áfram er áhersla á að styðja við börn og fjölskyldur með vönduðum rekstri leik- og grunnskóla, lágum leikskólagjöldum og gjaldfrjálsum almenningssamgöngum, sundiðkun barna og afar lágu gjaldi fyrir skólamáltíðir.
Það er afar sérstakt að bæjarfulltrúar Samfylkingar kenni um stefnuleysi, þegar fyrir liggur skýr framtíðarsýn um uppbyggingu í fræðslumálum, atvinnumálum, tónlist og menningu, íþróttum, samgöngum og ekki síst stuðningi við þá sem minna mega sín.