Þrír af fjórum megin þáttum aðgerðaráætlunar í fjármálum Reykjanesbæjar, Sóknarinnar, hafa verið virkjaðir. Þeir eru; hagræðing í rekstri, aðhald í fjárfestingum og verulega dregið úr fjárstreymi úr A-hluta bæjarsjóðs í B-hluta fyrirtæki. Markmiðið er að stöðva slíkt fjárstreymi alveg og gera B-hluta fyrirtækin, þ.e. Reykjaneshöfn, Fasteignir Reykjanesbæjar o.fl. slík fjárhagslega sjálfbær. Fjórði og síðasti liður Sóknarinnar snýr að lækkun skulda m.a. með samningum við kröfuhafa og lánadrottna Reykjanesbæjar og B-hluta fyrirtækja og hafa viðræður við þá staðið allt þetta ár.
Veltufé frá rekstri fer allt til greiðslu vaxta og gott betur
Þann 3. nóv. sl. var fjárhagsáætlun ársins 2016, og þriggja ára áætlun 2017, 2018 og 2019, lögð fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Í henni er gert ráð fyrir auknu veltufé frá rekstri A-hluta bæjarsjóðs miðað við undanfarin ár m.a. vegna hagræðingaraðgerða sem bæjaryfirvöld og starfsmenn hafa lagt í undanfarin misseri. Í A-hlutanum er öll lögboðin kjarnastarfsemi sveitarfélagsins.
Veltufé frá rekstri þarf að vera það mikið að það standi undir afskriftum, vaxtakostnaði og fjárfestingum A-hlutans. Þar vantar hins vegar mikið uppá, fyrst og fremst vegna gríðarlegs vaxtakostnaðar, en gert er ráð fyrir að Reykjanesbær þurfi að greiða tæpar 1400 milljónir í vexti á næsta ári. Því er unnið sleitulaust að því þessa dagana að reyna lækka skuldir bæjarins, og þar með vaxtagjöld, með samningum við kröfuhafa og lánadrottna.
Á þessari stundu er enn óvíst hvort það takist. Bæjarfulltrúar meirihlutans hafa sagt að ef þær viðræður leiði ekki til lækkunar skulda verði þess farið á leit við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að hún skipi sveitarfélaginu fjárhagsstjórn sem taki þá við fjármálum sveitarfélagins. Nefndin hefur ýmis úrræði umfram sveitarfélög sem hún getur gripið til skv. lögum en ekki er mikil reynsla komin á virkni slíkra fjárhagsstjórna á Íslandi þar sem aðeins einu sinni hefur verið gripið til slíks úrræðis. Það var þegar Álftaneshreppur lenti í greiðsluþroti og sameinaðist á endanum Garðabæ.
Breytingar á milli umræðna
Að sögn Kjartan Más Kjartansson, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, er vonast til að viðræðum við kröfuhafa ljúki með samningum fyrir lok nóvember. Ef samningar takast munu skuldir Reykjanesbæjar, og þar með vaxtakostnaður, lækka. Það mun hafa veruleg áhrif á niðurstöður fjárhagsáætlunarinnar og má því búast við breytingum á niðurstöðum áætlunarinnar við síðari umræðu þ. 15. des. nk.