Reykjanesbær, sem hefur slagorðið „Í krafti fjölbreytileikans“, fagnar að sjálfsögðu Hinsegin dögum, menningar-, mannréttinda- og margbreytileikahátíð sem haldin hefur verið í Reykjavík árlega frá árinu 1999.
Í tilefni Hinsegin daga hefur Regnbogafánum verið flaggað alla vikuna við Ráðhús Reykjanesbæjar og í dag tóku nokkrir fulltrúar úr Reykjanesbæ þátt í að mála regnbogagangbraut fyrir framan Ráðhúsið. Regnboginn hefur orðið að tákni í mannréttindabaráttu hinsegin fólks en höfundur fánans, Gilbert Baker, segir fánann eign allra sem berjist fyrir mannréttindum hvar sem er í heiminum.
Í Reykjanesbæ er um fjórðungur íbúa með erlent ríkisfang og koma þeir frá ríflega 90 löndum. Mikill fjölbreytileiki er í slíku samfélagi, ekki aðeins út frá þjóðerni íbúa heldur líka kyni, kynhneigð, kynvitund, trúarbrögðum, litarhætti, lífsskoðunum og svo mætti lengi telja. Kjartan Már Kjartansson sagði við þetta tilefni að hér í bæ værum við mjög meðvituð um hversu mikilvægt það er fyrir stórt sveitarfélag að virkja þann fjölbreytta mannauð sem myndar okkar ört stækkandi samfélag.
Það voru þau Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir forseti bæjarstjórnar, Eyjólfur Gíslason fulltrúi í velferðarráði, Sylwia Zajkowska leik- og brúðugerðarkona, Hermann Borgar Jakobsson fulltrúi í ungmennaráði, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar og Ólafur Björn Jónsson 7 ára sem tóku þátt í að mála regnbogagangbrautina í dag undir styrkri stjórn Ingva Hrafns Laxdal kennara, listamanns og fyrrum verkefnastjóra Hughrifa í bæ sem voru einmitt fyrst til að mála gangbrautina á þennan stað.