Harpa, Thelma, Helgi og Kolfinna við afhendingu og móttöku áskoruninnar í dag.
Foreldrar barna með einhverfu skoruðu í dag á fræðslu- og bæjaryfirvöld að koma á fót öðru sérhæfðu námsúrræði fyrir börn með einhverfu. Þeir tóku jafnframt fram að Reykjanesbær standi framarlega í sérhæfðri þjónustu við nemendur í skólakerfinu. Eikin í Holtaskóla er sérdeild sem sérhæfir sig í kennslu nemenda með einhverfu.
Í dag er alþjóðlegur dagur einhverfu. Því þótti foreldrum nokkurra einhverfra barna í Reykjanesbæ við hæfi að koma áskoruninni á framfæri einmitt á þeim degi. Foreldrarnir vilja með áskoruninni minna á að það úrræði sem standi grunnskólanemendum til boða, Eikin í Holtaskóla, sé sprungið og langur biðlisti hafi myndast. Þeir skori því á fræðslu- og bæjaryfirvöld að setja af stað annað sérhæft úrræði fyrir nemendur í grunnskóla, sem eru greindir með einhverfu. Þeir benda á að í bæjarfélagi sem sé orðið stærra en Akureyri dugi ekki ein einhverfudeild með plássi fyrir 10 nemendur.
Það voru Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri sérfræðiþjónustu sem tóku á móti áskoruninni úr höndum Hörpu Jóhannsdóttur og Thelmu Björk Jóhannesdóttur.