Njarðvíkingar hefja nýja tíma í fyrsta leiknum í IceMar höllinni um helgina

Á morgun, laugardag, verður IceMar höllin vígð þegar fyrsti leikur meistaraflokks karla Njarðvíkur verður leikinn kl. 19:00. Njarðvíkingar munu þá spila á móti Álftanesi í Bónus deild karla. Þessi nýja aðstaða, sem mun koma til með að leyfa allt að 1.850 áhorfendur, markar mikil tímamót fyrir Njarðvíkinga, sem hafa nú fengið glænýtt og nútímalegt húsnæði. Núna fyrst um sinn mega um 930 manns koma saman í höllinni.

IceMar höllin er hluti af umfangsmikilli uppbyggingu við Stapaskóla, þar sem nýja íþróttaaðstaðan spannar um 5.500 fermetra. Þar af er íþróttasalurinn sjálfur um 1.500 fermetrar. Höllin býður upp á rúmgóða og nútímalega æfingaaðstöðu fyrir Njarðvíkinga og verður það miðpunktur íþróttastarfs í bænum. Auk íþróttasalarins er unnið að 25 metra sundlaug, vaðlaug, heitum og köldum pottum og gufuböðum. Þetta nýja húsnæði býður upp á aukin þægindi og fjölbreytta æfingamöguleika fyrir iðkendur á öllum aldri.

Guðlaugur Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfis- og framkvæmdasviðs Reykjanesbæjar, segir að IceMar höllin sé algjör bylting fyrir körfuknattleiksdeild Njarðvíkur, samfélagið í Reykjanesbæ og sér í lagi fyrir Dals- og Tjarnahverfið. „Ljónagryfjan á sér langan sess í hjörtum Njarðvíkinga en með tilkomu IceMar hallarinnar þá er öll aðstaða félagsins gjörbreytt,“ segir Guðlaugur og bætir við að höllin sé hluti af heildaruppbyggingu Stapaskóla, þar sem einnig verður grunnskóli, leikskóli, sundlaug og bæjarbókasafn.

Það er ljóst að framtíðin er björt fyrir Njarðvíkinga!