Frá upphafi geðræktargöngu árið 2009. Göngurnar hafa lengið niðri um hríð og er áhugi á að endurvekja þær. Ljósmynd Víkurfréttir
Björgin, Geðræktarmiðstöð Suðurnesja efnir til geðræktargöngu á alþjóðlegum geðheilbrigðisdegi 10. október. Gangan hefst kl. 17:30. Einnig verður opið hús sem hefst kl. 15:30 en dagskráin lýkur með geðræktargöngu niður Hafnargötu. Fólk er hvatt til að halda upp á geðheilbrigðisdaginn með Björginni.
Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er haldinn hátíðlegur 10. október ár hvert. Starfsfólk og félagar í Björginni ætla að halda upp á daginn með því að bjóða gestum á opið hús sem hefst kl. 15:30 í húsnæði miðstöðvarinnar að Suðurgötu 15-17. Þar verður sala á verkum eftir félaga og sala á vöfflum, kaffi og kakó. Klukkan 17:00 verður haldið í aðalhús Bjargarinnar að Suðurgötu 12-14 og aðstaðan sýnd. Geðræktargangan hefst svo þaðan hálftíma síðar eða kl. 17:30 og verður gengið niður Hafnargötu.
Björgin er athvarf og endurhæfing fyrir fólk með geðrænan vanda af öllum toga. Fólk leitar þangað meðal annars til að rjúfa félagslega einangrun og eru allir velkomnir. Auk ráðgjafar býður Björgin upp á ýmsa afþreyingu, s.s. handavinnu, föndur, pool og spil.