Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Það er von undirbúningshópsins að gulur september, auki meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna. Auk þess að vera til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju. Sérstök áhersla verður lögð á geðrækt á vinnustöðum að þessu sinni.
Reykjanesbær vill vekja athygli á þessu þarfa verkefni á táknrænan hátt. Eins og gestir Ljósanætur hafa líklega tekið eftir þá skartaði götulýsing við Hafnargötu sínu fegursta yfir Ljósanæturhátíðina og bauð upp á marglita ljósasýningu sem skipti stöðugt litum. Ljósastaurar við Hafnargötu á milli Tjarnargötu og Duusgötu búa yfir nýrri snjalltækni sem gerir kleift á einfaldan hátt að lýsa upp hjálma hvers lampa með öllu litrófinu um leið og lampinn lýsir hvítu ljósi á gangstéttir. Þessi tækni býður upp á að hægt verður að nýta ljósin til að vekja athygli á ýmsum viðfangsefnum. Í tilefni af átaksverkefninu gulum september munu hjálmarnir því varpa gulu ljósi til að vekja athygli á og auka meðvitund um geðheilbrigði og sjálfsvígsforvarnir.
Undirbúningshópur verkefnisins bindur vonir við að fólk taki höndum saman um málaflokkinn í september, bæði með því að klæðast og skreyta í gulum lit. Þá hvetur hópurinn jafnframt verslanir til þess að hafa gular vörur og fatnað í forgrunni verslana. Guli dagurinn verður jafnframt haldinn hátíðlega á fimmtudag 7. september, og eru allir hvattir til að klæðast gulu þann dag. Deila mynd af gulri stemmingu og notast við myllumerkið #gulurseptember.
Hópurinn vekur athygli á því hversu brýnt málefnið er með nokkrum staðreyndum.
- Á Íslandi deyja að meðaltali 39 einstaklingar í sjálfsvígi, á ári.
- Yfir helmingur allra sjálfsvíga eiga sér stað fyrir 50 ára aldur. Sjálfsvígstíðni er tvöfalt hærri, í heiminum, meðal karla en kvenna.
- Áætlað er að um 703.000 manns deyi árlega í sjálfsvígum, á heimsvísu.
- Aðdragandi sjálfsvígs getur verið þungur og sár.
- Hvert sjálfsvíg hefur áhrif langt út fyrir innsta hring hins látna.
- Rannsóknir sýna að sjálfsvíg hefur mikil áhrif á um 135 manns.
- Aðstandendur takast á við krefjandi tilfinningar eins og sektarkennd og höfnun, úrvinnsla áfalls og sorgar er flókin.
Að verkefninu um gulan september standa fulltrúar frá Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossi Íslands, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.