LED lýsing er nú í Reykjaneshöllinni, sem ekki einungis hefur bætt lýsinguna í húsinu heldur sparar Reykjanesbæ umtalsverða fjármuni.
Hvatagreiðslur til íþrótta- og tómstundaiðkunar barna verða hækkaðar á næsta ári úr 15.000 þúsund krónum í 21.000 á hvert barn. Greiðslurnar voru þriðjungur þeirra upphæðar í byrjun kjörtímabils eða 7000 krónur. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum góðum verkefnum sem farið verður í á næsta ári.
Undirbúningur við nýjan grunnskóla í Dalshverfi í Innri Njarðvík er hafinn en skólabörnum hefur fjölgað mikið í hverfinu. Áætlað er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018 en að þangað til verði notast við lausar kennslustofur. Þá hefur Háaleitisskóli verið stækkaður og þar nýttar kennslustofur sem ekki höfðu verið í notkun frá því herinn fór. Húsgögn í grunnskólum bæjarins hafa verið endurnýjuð að hluta og aðstaða á skólalóðum bætt, en þetta voru meðal umkvörtunarefna ungmennaráðs, sem funda með bæjarstjórn tvisvar á ári.
Auk hækkunar á hvatagreiðslum til íþrótta- og tómstundaiðkunar barna verður hugað að úrbótum á aðstöðu í íþróttamannvirkjum Reykjanesbæjar, s.s. í Bardagahúsinu við Iðavelli og aðstöðu til upphitunar-, styrktar- og teygjuæfinga, s.k. þurr æfinga, sundfólks ÍRB.
Af öðrum góðum verkefnum má nefna aukinn stuðning við íbúa í viðkvæmri stöðu, s.s. börn, fólk með geðraskanir og fatlað fólk. Áfram verður unnið við viðgerðir og uppbyggingu gamalla húsa á Duus torfunni og útskiptingu hefðbundinnar lýsingar í bænum fyrir LED ljós. Endurskoðað Aðalskipulag Reykjanesbæjar tekur gildi á vormánuðum.
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2017-2020 var samþykkt eftir síðari umræðu í bæjarstjórn 20. desember sl. Það sem einkennir áætlunina er mikil aukning í tekjum, m.a. vegna bætts atvinnuástands og fjölgunar íbúa, en um leið mikið aðhald og agi í útgjöldum. Áætlunin byggir á þeim aðgerðum sem gripið var til haustið 2014 í áætlun um úrbætur í fjármálum Reykjanesbæjar og fékk heitið Sóknin. Með því næst að uppfylla jafnvægisreglu fjármálareglna sveitarstjórnarlaga sem gerir þá kröfu að samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu sé jákvæð á hverju 3 ára tímabili. Útsvarsprósentan verður áfram 15,05% út árið 2017 en ekki er gert ráð fyrir að þörf verði á áframhaldandi sérstöku álagi á útsvar eftir það.
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2017-2020