Sigurreifir keppendur úr Heiðarskóla þau Ástrós Elísa, Bartosz, Eyþór og Ingibjörg Birta ásamt varamönnunum Andra Sævari Arnarsyni, Hildi Björgu Hafþórsdóttur og Jónu Kristínu Einarsdóttur. Ljósmynd: Skjáskot af vef Rúv.
Lið Heiðarskóla vann frækinn sigur í Skólahreysti 2018. Keppnin fór fram í Laugardalshöll í gær. Þetta er þriðji sigur Heiðarskóla í Skólahreysti. Liðið er skipað Ástrósu Elísu Eyþórsdóttur, Bartosz Wiktorowicz, Eyþóri Jónssyni og Ingibjörgu Birtu Jóhannsdóttur.
Lið Heiðarskóla kom inn í úrslitakeppnina sem annað af tveimur stigahæstu liðunum í 2. sæti í sínum riðli í undanúrslitunum. Riðillinn sem Heiðarskóli keppti í var gífurlega sterkur, að sögn Helenu Óskar Jónsdóttur þjálfara. „Árangur skólans í riðlinum er því mjög góður þegar horft er á liðin sem voru síðan í úrslitum.“
Keppendurnir voru allan tíma alveg vissir um að þeir myndu komast í úrslitin þegar beðið var niðurstöðu , segir Helena þjálfari. Þau hafi haft miklar trú á sjálfum sér en jafnframt lagt mikið á sig til að ná þetta langt. „Eftir að við vissum að við kæmumst þangað þá voru þau strax komin með það markmið að vinna úrslitin. Þau voru ákveðin í því að bæta sig og gera betur en í undanúrslitunum. Þá var byrjað að plana aukaæfingar. Þau mættu á sunnudagskvöldum í íþróttasalinn í Heiðarskóla, þau mættu á frídögum eins og í páskafríinu og á Sumardaginn fyrsta. Þau settu sér sjálf markmið hvað þau þurftu að gera til að æfa sig og bæta, í gegnum íþróttina sína eða innan veggja heimilisins.“
Auk viðbótaræfinga skoraði Helena á þau að fara í nammibindindi mánuð fyrir úrslitin sem þau tóku. Helena segir þau hafa staðið sig eins og hetjur. „Allt sem ég setti þeim fyrir gerðu þau það 100% og oft meira til.“
Skólarnir tólf sem öttu kappi í úrslitunum í gær voru Grunnskóli Hornafjarðar, Grunnskólinn á Suðureyri og Súðavík, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Varmárskóli, Lindaskóli, Varmahlíðarskóli, Holtaskóli, Heiðarskóli, Ölduselsskóli, Laugalækjarskóli, Grunnskólinn Hellu og Brekkuskóli.