Hér etja kappi í hreystibraut Eðvarð Þór Eðvarsson skólastjóri Holtaskóla og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri. Um stjórn keppninnar sá Andrés Guðmundsson.
Lífshlaupið 2017, landskeppni ÍSÍ í hreyfingu, var sett í íþróttahúsinu við Sunnubraut í gærmorgun í samstarfi við Heilsueflandi samfélag og Holtaskóla. Keppt var í hreysti milli fjögurra liða sem Skólahreystilið Holtaskóla tók þátt í ásamt fulltrúum nokkurra hagsmunaaðila. Við þetta tækifæri voru íbúar Reykjanesbæjar hvattir til þess að gera hreyfingu og hollan lífsstíl í anda Heilsueflandi samfélags að lífsstíl sínum og nota vef Lífhlaupsins til að skrá iðkun sína og mataræði.
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.
Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:
• vinnustaðakeppni frá 1. – 21. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
• framhaldsskólakeppni frá 1. – 14. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
• grunnskólakeppni frá 1. – 14. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
• einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið
Til þess að taka þátt þarf að skrá sig á vef Lífhlaupsins, www.lifshlaupid.is. Hægt er að nýta Facebook aðgang sinn til þess og fylla svo inn helstu upplýsingar. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu. Börnum 15 ára og yngri er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag og 16 ára og eldri a.m.k. 30 mínútur á dag.