Frá hreyfistund í heilsuleikskólanum Háaleiti
Heilsuleikskólinn Háaleiti fékk á dögunum Erasmus+ styrkveitingu fyrir samstarfsverkefnið "What´s your moove?" Verkefnið er í samstarfi við Læringverkstedet Skogmo í Jessheim Noregi og Pallipõnn í Tallin Eistlandi, en Háaleiti stýrir verkefninu. Heilsuleikskólinn Háaleiti leggur frumáherslu á heilsueflandi leikskólastarf og er þátttakandi í Heilsueflandi leikskóli verkefni Embætti landlæknis. Leikskólinn er rekinn af Skólum ehf.
Verkefnið er samstarfsverkefni um innleiðingu á YAP (Young Athlete Program) aðferðinni, en Háaleiti hefur unnið með YAP-ið í leikskólanum síðan haustið 2015 og er fyrsti leikskólinn á Íslandi sem notar YAP. YAP var upphaflega hannað af Special Olympics samtökunum til að efla alhliða þroska 2-7 ára barna með frávik, í gegnum íþróttir og leik, en efnið er auðvelt að nota með öllum börnum leikskólans.
Grunnurinn að lífsvenjum og heilbrigði á fullorðinsárum er lagður í æsku og er dagleg hreyfing börnum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Skertur hreyfiþroski og önnur þroskafrávik gera börnum erfiðara fyrir að taka þátt í hópleikjum og getur almennt dregið úr löngun þeirra til að hreyfa sig. Því fyrr sem gripið er inn í og tekið á slíkum frávikum því meiri líkur eru á að barnið bæti færni sína, kynnist hreyfingu á jákvæðan hátt og tileinki sér lífsvenjur sem fela í sér daglega hreyfingu til framtíðar –Embætti Landlæknis.
Markmið verkefnisins „What´s your moove?“ er að gefa kennurum á leikskólum tækifæri á að tileinka sér nýjar aðferðir í snemmtækri íhlutun með áherslu á hreyfingu og leik. Rannsóknum á YAP ber saman um verulegar framfarir hjá þátttakendum og að sá árangur sem náðist viðhélst og var þá sérstaklega verið að horfa til félagsþroska, hreyfiþroska, málþroska og líðan.
Fyrsti fundur samstarfsskólanna var haldin hérlendis dagana 31. október til 4. nóvember, en tveir fulltrúar frá Noregi og þrír frá Eistlandi sátu fundinn, ásamt stýrihópi Háaleitis. Allir samstarfsskólarnir leggja áherslu á heilsueflandi leikskólastarf og var einstaklega ánægjulegt að Reykjanesbær og Sporthúsið buðu gestunum í sund og líkamsrækt í anda heilsueflandi samfélags.
Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. „Lengi býr að fyrstu gerð".