Leikskólinn Holt hlaut á dögunum þann mikla heiður að vinna til landsverðlauna 2012-2013 fyrir eTwinning verkefni sitt „Talking pictures“ sem er samstarfsverkefni milli skóla í Evrópu sem unnin eru á internetinu.
Talking pictures er samstarfsverkefni þriggja skóla, leikskólans Holts í Reykjanesbæ, leikskóla í Póllandi og leik- og grunnskóla á Spáni. Hver skóli sendi myndir tengdar ákveðnum viðfangsefnum á milli sín. Myndirnar voru upphafspunktur í vinnu með nánasta umhverfi og menningu. Börnin fengu jafnframt tækifæri til að kynnast menningu hinna landanna. Viðfangsefnin voru jólin, byggingar,skilti og merkingar, arfleifð, dýr og náttúra. Börnin unnu með viðfangsefnin á fjölbreyttan hátt og nýttu sér m.a. til þess upplýsingatækni.
Verkefnið hafði mikla þýðingu fyrir bæði kennara og börn. Augu kennara voru opnuð fyrir möguleikum upplýsingatækninnar ásamt því sem þeir lærðu hver af öðrum og kynntust aðstæðum kollega sinna. Börnin lærðu mikið af því að vera í samstarfi við börn í evrópskum skólum. Verkefnið hafði t.d. þýðingu fyrir börn af erlendum uppruna sem veitti þeim tækifæri til að kynna menningu og land sitt á einstakan hátt.
http://ourtalkingpictures.wordpress.com/ . Áframhald er á verkefninu 2013-2014 sem sjá má á þessum link http://pictureadventure.wordpress.com/ .