Brynja Ýr Júlíusdóttir og Kristín Þóra Möller kennarar í Akurskóla ásamt Valgerði Björk formanni fræðsluráðs. Á myndina vantar Esther Elínu Þórðardóttur.
Fræðsluráð Reykjanesbæjar efnir árlega til hvatningarverðlauna fyrir verkefni í skólastarfi sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni. Verðlaunin eru veitt til einstaka kennara, kennarahópa og starfsmanna í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem standa að baki verkefnunum.
Hvatningarverðlaunin verða afhent í Bíósal Duus Safnahúsa miðvikudaginn 8. júní kl. 17:00.
Allir sem vilja geta sent inn ábendingar um áhugaverð verkefni sem hafa nýst skólasamfélaginu og hafa verið unnin á yfirstandandi skólaári. Skila þarf inn tilnefningum fyrir 30. maí nk.
Eyðublað fyrir tilnefninguna má nálgast hér
Kristín Þóra Möller, Esther Elín Þórðardóttir og Brynja Ýr Júlíusdóttir kennarar í Akurskóla hlutu Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2021 fyrir Instagram verkefni úr Laxdælu.
Í verkefninu er Laxdæla túlkuð af nemendum með instagramfærslum og myndum. Nemendur bregða sér í hlutverk aðalpersóna í Laxdælu og skrifa söguna með instagramfærslum. Hugmyndaflugið fær að ráða för sem gerir það að verkum að nemendur eru stoltir og áhugasamir um verkefnið. Nálgunin mætir nemendum á þeirra áhugasviði og þeirra miðli. Verkefnið fær nemendur til að rýna betur í söguna og setja sig í spor persónanna. Instagramreikningar nemenda bera heiti eins og: official.kjartan.olafsson, bolli_thorleiksson og gudrun.osvifursdottir.
Tvö önnur verkefni hlutu einnig viðurkenningu en það voru verkefnin Söngleikurinn Mamma Mía sem settur var upp með nemendum í 8.-.10. bekk í Heiðarskóla og Daníella Holm Gísladóttir, Guðný Kristjánsdóttir, Esther Níelsdóttir og Hjálmar Benónýsson stóðu að og einnig Seesaw verkefni í Stapaskóla en þar finnur kennarinn Rebekka Rós Reynisdóttir fjölbreyttar leiðir til að mæta mismunandi þörfum nemenda sinna.