Hér sýnir Griffin Longley hvernig útivistarsvæði barna hefur skroppið saman frá því hann var barna að leika í Ástralíu og hvar börn leika nú (ljósgrænu fletirnir).
Ástralski frumkvöðulinn Griffin Longley hvetur Íslendinga til að snúa við blaðinu í skjánotkun barna og reyna að ná meira jafnvægi í skjánotkun og útileiki. Íslensk börn hafa löngum verið dugleg að leika úti, sem er ástæðan fyrir komu Griffin hingað til lands. Hann segir hins vegar teikn á lofti um að leikjastundum sé að fækka. Griffin var aðal ræðumaður á málþinginu Út að leika, sem fram fór í Keili, Ásbrú sl. föstudag.
Griffin Longley er ástralskur fjölmiðlamaður og frumkvöðull í útiveru og frjálsum leik barna. Griffin er stofnandi og framkvæmdastjóri Nature Play í Ástralíu. Í erindi sínu fór Griffin yfir staðreyndir í skjánotkun og útileikjum ástralskra barna. Skjástundum hefur fjölgað mikið á kostnað leikjastunda, sem fækkar að sama skapi. Auk skjámiðla ýmiskonar segir Griffin ástæðuna einnig hræðslu foreldra við hættur og ógnir sem þeim er sagt að leynist utanhúss. Afleiðingin er vaxandi heilsufarsvandi barna vegna hreyfingarleysi og inniveru, jafnvel þótt íþróttaiðkun barna fari vaxandi. Íþróttaiðkun sé alltaf af hinu góða en frjálsir leikir séu börnum nauðsynlegir. Meðal jákvæðra áhrifa sé almenn aukin vellíðan og minnkandi lyfjanotkun.
Tölulegar upplýsingar Griffin voru sláandi. Áströlsk börn eyða 25,8 klst. á viku í nám, 20 klst. í skjámiðla og 6 klst. í útileiki. Það þýðir að útivera er minni en 2 klst. á dag, en það er sá tími sem föngum í öryggisfangelsum er gert að eyða utandyra. Aðeins 55% barna leika úti á hverjum degi. Þegar kemur að samskiptum innan heimila þá eru töluð 6000 orð á dag ef skjástundir heimilisins eru takmarkaður við 2 klst. á dag en aðeins 500 orð ef skjástundir eru ótakmarkaður. Það gefur til kynna mjög skerta málörvun barna, fyrir utan skertar samverustundir.
Búðu til tíma fyrir leik, um hann snýst bernskan
Velferð barna er mikil á Íslandi og íslensk börn eru dugleg að leika úti. Ísland er meðal fjögurra efstu þjóða heims þar sem börn eyða tíma utandyra. Hinar eru Finnland, Noregur og Holland. Þessar þjóðir vildi Griffin skoða betur og heimsótti því allar. Í athugunum sínum hérlendis hefur hann hins vegar komist að því að leikjastundum íslenskra barna fer einnig fækkandi. Griffin beindi því til málþingsgesta að reyna að sporna við þessari þróun, meðan enn sé tækifæri til þess. Lausnin væri skemmtileg og einföld, sem sé ekki alltaf svarið við erfiðum áskorunum. Foreldrar þurfi að koma á meira jafnvægi á milli leikjastunda og skjástunda, þ.e. minnka slæm áhrif skjánotkunar fyrir góð áhrif, því áhrif skjánotkunar séu ekki öll slæm.
- Búðu til tíma fyrir leik. Bernskan snýst um leik
- Leyfðu barninu að leiðast. Í leiðanum verður til eitthvað skemmtilegt
- Búðu til tíma til að eyða úti í náttúrunni. Náttúran er full af ævintýrum. Verið með og upplifið gleði barnanna
- Forgangsraðaðu tíma til að eyða með barni þínu eða börnum
Á málþinginu fór Gunnhildur Gunnarsdóttir yfir starfsemi Fjörheima og 88 hússins, sem er mjög öflugt. Helgi Arnarson kynnti Sumar í Reykjanesbæ, en Helgi var jafnframt málþingsstjóri. Þá kynnti Björn Þór Jóhannsson mannfræðingur og verkefnisstjóri mikilvægi leikja með börnum og ungmennum.
Í tengslum við málþingið var boðið upp á ævintýragöngu fyrir fjölskylduna á Þorbjörn laugardaginn 11. maí. Þar var brugðið á leik, m.a. með þeim þekktu ævintýrapersónum Lilla klifurmús og refnum úr Hálsaskógi. Þátttaka í göngu og málþingi var góð, en hvort tveggja var liður í Listahátíð barna.