Jólin nálgast í Aðventugarðinum

Jólin nálgast í Aðventugarðinum

Brátt nær jólaundirbúningurinn hámarki og spennan magnast hjá börnunum. Þá er gott að geta brotið upp daginn með skemmtilegri heimsókn í Aðventugarðinn. Næsta helgi verður uppfull af tónlist og uppákomum en meðal þeirra sem heimsækja garðinn um helgina eru Jóliver og Jólavía frá Sirkus Íslands, Jólakór Team DansKompaní, Sirkus Ananas sem leikur listir og býður upp á mandarínur. Tónafljóð flytja jólasöngleik, sýnt verður atriði úr Jólasögu Leikfélags Keflavíkur og Karlakór Keflavíkur tekur lagið. Kósýbandið kemur okkur í jólaskap og jólasveinar, Snjóprinsessan og fjallamaðurinn hennar verða á vappi í garðinum. Upplagt er að kíkja í jólakofana og sjá hvort þar leynist ekki eitthvað fallegt í jólapakkann og klassískt er að ylja sér á heitu ketilkakói og grilla sykurpúða yfir opnun eldi. Allir geta tekið þátt í ratleik Aðventugarðsins og Aðventusvellið býður upp á frábæra fjölskylduskemmtun. Það er því upplagt að leggja leið sína í Aðventugarðinn og taka inn jólaandann þessa þriðju helgi í aðventu.

Dagskrá

Jólahús Reykjanesbæjar

Nú fer hver að verða síðastur til að senda inn tillögu að jólahúsi Reykjanesbæjar. Víða um bæinn leynast fallega og skemmtilega skreytt hús og eru íbúar hvattir til að benda á þau hús sem þeim finnst verðskulda að fá tilnefningu. Það eina sem þarf að gera er að smella á hnappinn hér að neðan og skrá inn heimilisfang þess húss sem er tilnefnt og ekki er verra að senda eina mynd með.

Jólahús Reykjanesbæjar

Jólakveðja úr Aðventugarðinum