Krakkaskák.is er heimasíða sem fór í loftið 14. febrúar 2012. Þar geta börn lært að tefla með því að horfa á kennslumyndbönd og einnig skráð sig í krakkaskáklið og teflt við önnur börn á netinu alveg frítt. Krakkaskák byrjaði að heimsækja börn í skólum í Reykjanesbæ, Garði, Sandgerði og Grindavík um miðjan mars og hefur verið í nokkur skipti í hverjum þeirra til þess að kanna áhuga fyrir því að sækja reglulegar skákæfingar þar sem börn úr öllum skólum hittast á einum stað og þjálfa sig saman.
Börnin sem hafa mætt á æfingar hafa skemmt sér og skilað sér aftur í tímana og hafa áhuga fyrir því að læra skák sem er mikið gleðiefni.
Krakkaskák er rekin áfram á styrkjum frá fyrirtækjum og þeim sem vilja styrkja og hefur þá stefnu að börnin eigi ekki að borga fyrir skákæfingar.
Nú er svo komið að krakkaskák hefur ákveðið að vera með fastar æfingar tvisvar sinnum í viku í Íþróttaakademíu Reykjanesbæjar á miðvikudögum klukkan 16:00- 18:00 og laugardögum kl:10:00-12:00. Þessar æfingar eru ætlaðar aldurshópnum 9-14 ára og yngri börnin sem eru 6-8 ára mæta klukkan 12:15 – 13:15 eingöngu á laugardögum.
Æfingar í Grindavík verða á laugardögum klukkan 14:30 – 16:30 í félagsmiðstöðinni
Þetta er mögulegt að framkvæma fram að sumarlokum og hefja svo starfið aftur að nýju skólaári. Skákþjálfun hefur ekki verið stunduð að neinu marki suður með sjó í ansi mörg ár og nú verður mikil breyting á og þökk sé góðviljuðum stjórnendum bæjarfélaga á Suðurnesjum,skólastjórum og þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem hafa styrkt krakkaskak.is
Markmiðin með æfingunum eru að að hafa gaman af því að tefla og búa til góð skáklið innan skólaveggjana svo börnin geti tekið þátt í öllum þeim fjölmörgu keppnum sem eru í boði á Reykjarvíkursvæðinu.
Æfingarnar og aðstæður til þess að æfa eru frábærar. Krakkaskák ætlar að halda jólamót,páskamót og Suðurnesjamót þar sem verður krýndur meistari í hverjum flokki drengja og stúlkna.
Ég vil hvetja foreldra barna úr Garði og Sandgerði að leggja það á sig að koma því svo fyrir að börn þaðan geti stundað þessar æfingar. Því miður er skák ekki valgrein í skólum á Suðurnesjum og mjög erfitt að koma því í kring að þjálfa börnin á öllum stöðum og því er Íþróttaakademían frábær lausn og æfingarnar hafðar á þeim tíma sem allir ættu að geta komist svo framarlega að þau hafi far á milli. Foreldrar verða að hjálpa til eins og í öllum öðrum íþróttum. Tíminn er fugl sem flýgur hratt og sérlega hratt yfir skákborðinu og ekki hægt að segja annað en tímanum sé vel varið og mjög skemmtilegt að tefla.
Með bestu kveðju Siguringi Sigurjónsson