Í dag var haldinn kynningarfundur í Hljómahöll þar sem Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes jarðvangur kynntu almyrkva sem verður á Íslandi þann 12. ágúst 2026.
Mikill áhugi ríkir meðal ferðamanna víða um heim á að upplifa þennan einstaka atburð, og hafa ferðaskrifstofur þegar hafið sölu á sérstökum ferðum til Íslands í tengslum við almyrkvann. Þá hafa skemmtiferðaskip einnig byrjað að bóka hafnir hér á landi fyrir þennan dag.
Ef veður verður gott, verður útsýnið á almyrkvann sérstaklega gott á Reykjanesi, og var á fundinum velt því fyrir sér hvernig undirbúa megi svæðið fyrir þann mikla fjölda fólks sem búist er við. Sérstakur gestur á fundinum var Sævar Helgi Bragason, en hann hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir framúrskarandi vísindamiðlun. Sævar kynnti fyrir fundargestum almyrkvann og ræddi þá miklu athygli sem slíkir atburðir hafa dregið að sér á öðrum stöðum í heiminum, ásamt mögulegum verkefnum sem tengjast þessu einstaka tækifæri.
Á fundinum var einnig rætt um hegðun ferðamanna, umferðaröryggi og hvernig best væri að skilgreina og undirbúa útsýnis- og ljósmyndastaði fyrir almyrkvann.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, mætti á fundinn ásamt nokkrum öðrum fulltrúum bæjarins. Ljóst er að almyrkvinn 2026 getur haft veruleg áhrif á svæðið, og er undirbúningur þegar hafinn til að taka á móti þeim gestum sem vilja upplifa þessa sjaldgæfu og stórbrotnu sjón.
Hægt er að lesa meira um almyrkvann hér: SÓLMYRKVI 2026