Frá æfingu revíunnar Allir á trúnó! Ljósmynd: LK
Föstudaginn 8. mars verður frumsýnd ný revía hjá Leikfélagi Keflavíkur þar sem tekið er á mönnum og málefnum sem hafa vakið athygli á undanförnum mánuðum og jafnvel árum. Í ár eru 30 ár liðin frá fyrstu revíu félagsins sem sýnd var í Félagsbíói og sló aðsóknarmet félagsins á þeim tíma. Síðan þá hafa verið sýndar nokkrar revíur með góðri aðsókn bæjarbúa og þær hlotið mikið lof.
Revíur taka púlsinn á því sem hefur verið að gerast á Suðurnesjum og málefnum sem hafa verið umfjöllunarefni á kaffistofum vinnustaða, rifist hefur verið um, skrifað ofl. Pólitíkusar, menningarmál, fjölmenning, kísilver, Ljósanótt og svo mætti lengi telja eru meðal þess sem viðrað er í þessu verki.
Að þessu sinni er revían samin af leikfélagsmeðlimum sem allir hafa reynslu af skrifum. Leikstjóri verksins er leikkonan Björk Jakobsdóttir en hún hefur áralanga reynslu af leikstjórn ýmissa leikverka og hefur bæði sem leikkona og leikstjóri góða innsýn í leikhúsvinnu með áhugaleikhúsum og atvinnuleikhúsum. Björk ber Leikfélagi Keflavíkur góða sögu og segir að hér sé um að ræða frábæran leikhóp sem sýnir sitt besta í virkilega vel skrifuðu verki. Söngur, gleði og grín sem svo sannarlega kemur til með að kitla hláturtaugar gesta, kannski hneyksla einhverja en gleðja aðra. Allt er þetta gert með það að markmiði að skemmta leikhúsgestum.
Leikfélag Keflavíkur er eitt af öflugustu áhugaleikfélögum landsins og er þess skemmst að minnast að sýning félagsins Mistery boy var valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins síðasta leikár og var sýnd fyrir fullu Þjóðleikhúsi við mikinn fögnuð. Höfundur þess verks var ungur áhugaleikari og tónlistarmaður, Smári Guðmundsson en þar sannaði leikfélagið enn og aftur hversu öflugt það er og að félagið er til í að fara óhefðbundnar leiðir í verkefnavali.
Sú sýning sem sló öll aðsóknarmet er Dýrin í Hálsaskógi sem sýnd var haustið 2018 í leikstjórn Gunnars Helgasonar og enn eru leikarar að koma fram á hinum ýmsu skemmtunum með persónum úr dýrunum. Öflugt starf hjá öflugu Leikfélagi Keflavíkur. Eins og fyrr segir verður frumsýning revíunna r föstudaginn 8. mars og allar nánari upplýsingar má finna á lk.is.
Með því að smella á þennan link opnast síða Leikfélags Keflavíkur