List án landamæra 2011

Sveitarfélögin á Suðurnesjum taka nú í þriðja sinn þátt í hinni mögnuðu hátíð List án landamæra. Markmið hennar er fjölbreytni, að sjá tækifæri í stað takmarkana. Hátíðin er vettvangur til að koma listsköpun fólks með fötlun á framfæri og síðast en ekki síst að koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks.
Hátíðahöldin hefjast föstudaginn 29. apríl með opnun myndlistarsýningar í Krossmóa (Nettó) kl. 17.00. Þar verða til sýnis skúlptúrar og málverk eftir félaga úr Björginni - Geðræktarmiðstöð Suðurnesja, þjónustunotendur úr Hæfingarstöðinni og börn úr dagþjónustu Ragnarssels og stendur sýningin til 8. maí. Í næstu viku verður einnig opnuð sýning í Krossmóa 4 á verkum eftir þátttakendur í Samvinnu, starfsendurhæfingu á Suðurnesjum.
Hápunktur hátíðahaldanna verða loks stórtónleikar í Frumleikhúsinu laugardaginn 7. maí kl. 15.00 en þar halda um stjórnartaumana snillingarnir okkar, Arnór Vilbergsson organisti og Jóhann Smári Sævarsson óperusöngvari og verður spennandi að sjá hvað þeir munu töfra fram fyrir okkur að þessu sinni.
Frítt er á alla viðburði og fólk hvatt til að láta sjá sig.
Nánari upplýsingar um dagskrá má sjá á listanlandamaera.blog.is