Einar Guðberg og Valgerður.
Einar Guðberg Gunnarsson kom færandi hendi til Listasafns Reykjanesbæjar á dögunum með tvö málverk að gjöf til safnsins frá fyrrum eigendum fyrirtækisins Ramma.
Auk Einars stýrðu fyrirtækinu þeir Sigurþór Stefánsson og Jón Ármann Arnoddsson. Myndirnar eru eftir Suðurnesjamennina og listamennina góðkunnu Óskar Jónsson og Guðmund Maríusson. Mynd Guðmundar keyptu þeir félagar beint af honum sjálfum árið 1982 en þá var hann starfsmaður í Ramma. Mynd Óskars keyptu þeir um áratug fyrr en báðar prýddu þær skrifstofur Ramma alla tíð þar til nú er þeir færðu Listasafninu myndirnar til varðveislu.
Nú hefur formlega verið tekið í notkun nýtt varðveisluhúsnæði byggðasafns, listasafns og skjalasafns í sjálfu Rammahúsinu sem þeir félagar byggðu á sínum tíma og því kannski hægt að segja að myndirnar séu komnar aftur heim.
Listasafn Reykjanesbæjar þakkar þeim félögum þessa góðu gjöf en eitt af markmiðum Listasafnsins er einmitt að efla listaverkaeign safnsins svo hún gefi góða mynd af, annars vegar listamönnum svæðisins og hins vegar samtímalist á landinu öllu.