Eini viðurkenndi listdansskólinn utan höfuðborgarsvæðisins er staðsettur að Ásbrú í Reykjanesbæ. Þar hefur gömlum hergagnageymslum verið breytt í 1200 fermetra listdans- og ballettskóla, með aðstoð Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Í síðustu viku var húsnæði stækkað frekar og af því tilefni var bæjarstjóri fenginn til að opna það formlega. Húsnæðið býður nú 3 æfingasali auk minni æfingaaðstöðu, kennaraaðstöðu og skrifstofuhúsnæðis. Samstarf er á milli listdansskólans, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis, miðstöðvar vísinda fræða og atvinnulífs að Ásbrú. Fyrirhugað er að bjóða heimavist að Ásbrú í tengslum við listdansskólann sem gæti hafist á næsta ári. Frumkvöðull og stjórnandi Listdansskóla Reykjanesbæjar er Bryndís Einarsdóttir.