Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ 2020
Miðvikudaginn 11. mars fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ fram í Bergi, Hljómahöll í 23. sinn. Það eru nemendur í 7. bekk úr grunnskólum Reykjanesbæjar sem taka þátt í keppninni ár hvert. Áður hafa skólarnir haldið forkeppni og valið tvo fulltrúa hver.
Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember ár hvert en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar sérstaka áherslu á vandaðan upplestur og framsögn.
Það er óhætt að segja að keppendur hafi staðið sig með prýði og voru sjálfum sér og sínum skóla til mikils sóma. Dómnefndin var ekki öfundsverð af hlutskipti sínu að velja í verðlaunasæti enda lagði Hrefna Sigurjónsdóttir formaður dómnefndar áherslu á það að allir væru í raun og veru sigurvegarar. Að sama skapi hvatti hún keppendur til þess að halda áfram að leggja rækt við þennan þátt móðurmálsins, vandaðan upplestur og framburð.
Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en flutt voru fjögur tónlistaratriði á hátíðinni. Allir nemendur sem komu fram eru í 7. bekk og komu úr öllum grunnskólum Reykjanesbæjar. Sigurvegarar í stóru upplestrarkeppninni frá fyrra ári þær Guðrún Lilja Magnúsdóttir og Íris Sævarsdóttir kynntu skáld hátíðarinnar þá Birki Blæ Ingólfsson og Jón Jónsson úr Vör. Þá las Ívana Ananic, nemandi í Háaleitisskóla ljóð á móðurmáli sínu, serbnesku. Að lokum flutti Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs ávarp og afhenti bókagjafir.
Sigurvegarar keppninnar í ár voru eftirtaldir:
Í 1.sæti var Alexander Freyr Sigvaldason, Akurskóla
Í 2.sæti var Thelma Helgadóttir, Myllubakkaskóla
Í 3.sæti var Margrét Júlía Jóhannsdóttir, Holtaskóla