Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri setti hátíðina
Ljósanótt, fjölskyldu- og menningarhátíð Reykjanesbæjar var í morgun sett í 21. sinn, í blíðskaparveðri í skrúðgarðinum í Keflavík, að viðstöddum um fimmhundruð nemendum úr öllum leik- og grunnskólum bæjarins. Það mátti skynja eftirvæntingu í loftinu þegar Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri setti hátíðina enda þrjú ár síðan Ljósanótt var síðast haldin.
Fulltrúi úr ungmennaráði Reykjanesbæjar, Hermann Borgar Jakobsson, dró risastóran marglitan Ljósanæturfána að húni á eina hæstu flaggstöng landsins en litir fánans eru til tákns um margbreytileikann og kraftinn sem býr í samfélaginu í Reykjanesbæ. Það var svo Friðrik Dór sem söng inn hátíðina með börnunum sem bundu lokahnútinn á dagskrána með því að syngja öll saman lagið Velkomin á Ljósanótt sem orðið hefur að eins konar einkennislagi hátíðarinnar.
Mikil dagskrá framundan
Við tekur fjögurra daga fjölbreytt dagskrá en ríflega eitthundrað viðburðir hafa verið skráðir á vef Ljósanætur, ljosanott.is. Seinnipartinn í dag, fimmtudag, opna listsýningar um allan bæ og verslanir bjóða upp á dúndur tilboð svo reikna má með að bærinn komi til með að iða af lífi þegar líða fer á kvöldið. Á föstudag er öllum hátíðargestum boðið upp á kraftmikla kjötsúpu frá Skólamat og dagskrá verður á svokölluðu Götupartýssviði á Tjarnargötu þar sem Jón Jónsson kemur fram auk ýmissa annarra. Síðan taka við tónleikar í hverfum skipulagðir af íbúum og afar fjölbreyttir tónleikar á skemmtistöðum og í samkomuhúsum bæjarins er að finna alla helgina þar sem fram koma m.a. GusGus, Dimma, Stjórnin, KK, Maggi Eiríks, Pálmi og Aldamótatónleikar svo eitthvað sé nefnt.
Hápunkti náð á laugardag
Dagskrá laugardags hefst með svokallaðra Árgangagöngu þar sem árgangarnir hittast við Hafnargötu og arka í sameiningu að aðalsviði þar sem bæjarstjóri tekur á móti hópnum. Iðandi dagskrá er allan laugardaginn sem nær hápunkti sínum með kvöldtónleikum á útsviði þar sem fram koma FLOTT, Bubbi Morthens, Vök og Birni. Við tekur bjartasta flugeldasýning landsins áður en ljósin á Berginu eru kveikt sem lýsa íbúum fram á vor og minna á Ljósanótt og sköpunarkraftinn sem í bænum býr. Sunnudagur Ljósanætur er tilvalinn til að þræða allar þær sýningar sem ekki tókst að skoða hina dagana, gera góð kaup í handverkstjaldi og verslunum og klassískt er að leyfa börnunum að klára tívolímiðana sína. Þá er einnig boðið upp á tónleika í Höfnum með Elízu og Lay Low og sérstaka Bítlamessu í Keflavíkurkirkju.
Alla dagskrá Ljósanætur er að finna á www.ljosanott.is og einnig má fylgjast með framvindu hátíðarinnar á samfélagsmiðlum.