Sævar Helgi Bragason ræddi mikilvægi þess að setja umhverfismálin á oddinn í skólastarfinu
Haustráðstefna fræðslusviðs Reykjanesbæjar fyrir grunnskólana í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ var haldin í Hljómahöll 13. ágúst. Að sögn Haraldar Axels Einarssonar grunnskólafulltrúa Reykjanesbæjar var mikil ánægja með ráðstefnuna meðal ráðstefnugesta. Að þessu sinni var sjónum beint að stórum viðfangsefnum sem snerta alla aðila skólasamfélagsins.
Fjögur erindi voru á dagskrá ráðstefnunnar Menntun og velferð fyrir alla: skóli margbreytileika, fjölmenningar og vináttu.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ fjallaði um fjölmenningarlegt skólastarf og menningarnæmi í leik og starfi. Hilma kom inn á mikilvægi þess að starfsfólk, íbúar og fyrirtæki stuðli í sameiningu að samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri til félagslegrar þátttöku og upplifi að þeir tilheyri samfélaginu. Að hennar mati liggur lykillinn að því að ná þessu markmiði í vinsamlegu og faglegu viðmóti, auknum persónulegum tengslum og vináttu meðal íbúa af ólíkum uppruna.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, kennsluráðgjafi á fræðslusviði Reykjanesbæjar kynnti uppbyggingu á stöðumati fyrir nýkomna nemendur af erlendum uppruna sem hefur verið samstarfsverkefni Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Árborgar. Stöðumatið veitir nemendum tækifæri til að segja frá og sýna fram á fyrri þekkingu og reynslu. Niðurstöðurnar gefa skýra mynd af námslegri stöðu nemenda sem auðveldar skipulag á móttöku og kennslu.
Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari með ástríðu fyrir miðlun vísinda fjallaði um mikilvægi þess að setja umhverfismál á oddinn í skólastarfinu í kjölfar sjónvarpsþáttaraðarinnar Hvað höfum við gert. Sævar Helgi flutti sitt erindi af mikilli innlifun enda umhverfismálin hans hjartans mál og hann hreyfði svo sannarlega við ráðstefnugestum. Umhverfismálin eru menntamál svo mikið er víst.
Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi í tækni, nýsköpun og skólaþróun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði ræddi meðal annars um hinar fjölmörgu leiðir til náms, nauðsyn þess að vinna sem teymi og mikilvægi sköpunar. „Að búast við því að barn læri best með því að lesa kennslubók er eins og að fletta ferðabæklingi og kalla það sumarfrí“ sagði Ingvi Hrannar þegar hann var að leggja áherslu á mikilvægi fjölbreytni í námi.
Kristín María Gunnarsdóttir lauk ráðstefnunni á hugvekju á léttu nótunum og ráðstefnugestir tóku með sér veganesti inn í skólaárið með bros á vör.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir lagði áherslu á vináttuna og virðingu í samskiptum