Sigurreifar Njarðvíkurstúlkur
Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar árið 2012 í kvennakörfubolta eftir 62-76 eftir sigur gegn Haukum á útivelli. Njarðvíkingar leiddu nánast frá upphafi en á tímabili leit út fyrir að Haukar væru að fara stela þessu eins og venja er orðin í þessu einvígi. Njarðvíkingar höfðu þó sigur að lokum og fögnuðu ærlega enda tvöfaldir meistarar árið 2012.
1000 manns mættu í Schenker Höllina í dag til þess að fylgjast með leiknum en með sigri gátu Haukar knúið fram oddaleik. Njarðvíkingar voru ekki á þeim buxunum og byrjuðu leikinn af krafti. Shanae Baker-Brice skorar fyrstu 4 stigin og Lele Hardy skoraði þriggja stiga körfu og Njarðvíkingar komust í 0-7. Ólöf Helga setti niður þrist og staðan var fljótlega 2-10. Ólöf Helga byrjaði vel í sókninni en hún skoraði 7 stig í leiknum.
Haukar náðu að laga stöðuna og þegar 5 mínútur voru liðnar var staðan 12-14 Njarðvík í vil. Petrúnella Skúladóttir smellti svo niður djúpsprengju að hætti hússins og jók muninn í 12-17. Það var hart barist allt frá upphafi og leikmenn hikuðu ekki við það að dýfa sér á parketið.
Það var að virka vel hjá Njarðvíkingum að keyra að körfunni en þær hafa verið að falla í þá gryfju að skjóta full mikið fyrir utan í einvíginu. Þegar 1. leikhluta lauk þá höfðu Njarðvíkingar forystu 16-26 þökk sé góðum kafla undir lokin þar sem þær sýndu mikla baráttu í vörn og voru að frákasta vel.
Haukar rönkuðu við sér og náðu að minnka muninn í 1 stig á fyrstu tveim mínútum 2. leikhluta. Haukar jöfnuðu svo leikinn í 27-27 og komust því næst yfir í næstu sókn en þá höfðu Njarðvíkingar haft forystu frá upphafi.
Ingibjörg Elva var að reyna að taka Jence Ann Rhoads úr umferð eins og handboltamenn gera jafnan en þrátt fyrir það var Rhoads sjóðheit og lék á alls oddi. Kannski Logi Geirsson verði að skóla hana Ingibjörgu í þessu en hann ætti að vera vanur því að vera tekinn úr umferð. Þegar leikhlutinn var hálfnaður voru Haukar svo 33-28 yfir. Njarðvíkingar komu þó með gott áhlaup og náðu að fara með forystu í leikhlé. 38-39 var staðan gestunum í vil.
Lele Hardy var með 15 stig í hálfleik og Shanae Baker-Brice var með 8. Hardy var auk þess með 10 fráköst. Jafnt var annars á öllum tölfræðiþáttum og ljóst að úrslitin myndu ráðast undir lok leiks. Jenkins sem hefur verið driffjöður Hauka var frekar róleg hjá Haukum en hún hafði aðeins skorað 6 stig.
Njarðvíkingar byrjuðu vel í síðari hálfleik og héldu forystunni. Haukar virtust vera að missa móðinn en aldrei er hægt að afskrifa þær eins og sést hefur í þessari úrslitakeppni. Eins og áður í leikjum þessara liða yrði það líklega lokaleikhlutinn sem myndi skera úr um sigurvegara. Annað hvort yrði oddaleikur eða þá að Njarðvíkingar lyftu fyrsta Íslandsmeistarabikar sínum í sögu kvennaboltans á loft. 7 stig skildu liðin að þegar 4. leikhluti fór af stað, 49-56 og Njarðvíkingar í bílstjórasætinu.
Þegar 5 mínútur voru til leiksloka var munurinn aðeins 3 stig og ljóst að æsispennandi lokakafli væri framundan. Ólöf Helga fór langt með að tryggja sigur þegar hún sökkti þriggja stiga skoti þegar tæpar 4 mínútur voru eftir og breytti stöðunni í 57-63 en þó er sá munur ekki mikill í körfubolta. Njarðvíkingar voru líka góðar í vörninni og þegar 2:18 voru til leiksloka var staðan 57-66 fyrir grænar. Nú var þetta nánast komið í hús. Haukar slepptu ekki alveg takinu en Njarðvíkingar voru með 10 stiga forystu þegar 52 sekúndur voru eftir. Ekki var aftur snúið og í fyrsta sinn í sögu kvennaboltans í Njarðvík mun fáni prýða vegg Ljónagryfjunnar.
Til hamingju Njarðvíkingar!