Norræn grafíksýning í Bíósal

Grafíkverk.
Grafíkverk.

Listasafn Reykjanesbæjar tók sl. vetur þátt í norrænu listverkefni ásamt listasöfnum bæði í Noregi og Svíþjóð og mun verkefnið enda á sýningum í öllum löndunum nú í haust. Íslenska sýningin Óvættir og aðrar vættir, opnaði fimmtudaginn 1. september í Bíósal Duushúsa og var þar með á dagskrá Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar. Á sýningunni má sjá tæplega 60 verk frá öllum þremur þátttökulöndunum. Verkefnið gekk út á að hópur 12-14 ára unglinga í þessum þremur löndum var fenginn til að myndskreyta þjóðsögur úr heimahögunum og voru til þess notaðar grafískar aðferðir. Íslenski hópurinn kom frá Myllubakkaskóla í Keflavík og vann hópurinn út frá sögunni Rauðhöfði undir stjórn myndmenntakennarans Sigríðar Ásdísar Guðmundsdóttir og Elvu Hreiðarsdóttur formanns félagsins Íslenskrar grafíkur en félagið hafði milligöngu um verkefnið. Hin söfnin voru Dalarnas Museum í Svíþjóð og Haugesund Billedgalleri í Noregi. Verkefnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og mun sýningin standa út september.