Reykjanesbær fagnar fjölbreytileikanum

Gangbraut fjölbreytileikans, sem liggur fyrir framan ráðhús Reykjanesbæjar, var máluð í dag í litum fána hinseginleikans, sem hefur verið nýttur við mannréttindabaráttu víðs vegar um heiminn. Gangbrautin var máluð í tilefni af Hinsegin dögum sem standa yfir þessa dagana.

Krakkar frá vinnuskóla Reykjanesbæjar sáu um að mála að þessu sinni ásamt bæjarfulltrúunum Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur og Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur.

Reykjanesbær starfar undir formerkjum slagorðsins „Í krafti fjölbreytileikans“ og leggur mikla áherslu á að fagna og virða fjölbreytileikann í öllum sínum myndum. Með því að mála regnbogabrautina fyrir framan ráðhúsið er bæjarfélagið að senda skýr skilaboð um mikilvægi mannréttinda og jafnræðis.

Gleðilega Hinsegin daga!