Berglind Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Keilis og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður bæjarráðs undirrituðu kaupsamning á Grænásbraut 910 á dögunum.
Reykjanesbær hefur fest kaup á húsnæði Keilis á Ásbrú en upphaflega var húsið framhaldsskóli þegar varnarliðið var á svæðinu. Starfsemi Keilis hefur breyst mikið og hefur ekki haft þörf fyrir allt húsið um nokkurt skeið. Keilir mun starfa áfram í hluta af húsnæðinu fyrst um sinn en Reykjanesbær nýta hluta þess undir margvíslega starfsemi fyrstu árin. Þegar til lengri tíma er litið má gera ráð fyrir að húsnæðið verði nýtt fyrir menntastofnun í Ásbrúarhverfi sem er í örum vexti.
Bæjarskrifstofur Reykjanesbæjar flytjast tímabundið í Keili
Á næstu vikum munu bæjarskrifstofur Reykjanesbæjar flytja sig um set í fyrrum húsnæði Keilis. Til stendur að gera endurbætur á núverandi húsnæði starfseminnar á Tjarnargötu 12 sem hýsir einnig bókasafn Reykjanesbæjar en það mun flytja og opna í Hljómahöll í byrjun apríl. Húsnæðið við Tjarnargötu 12 er komið til ára sinna og þörf er á margvíslegum endurbótum. Má þar nefna neysluvatns og ofnalagnir sem eiga lítinn líftíma eftir, raflagnir eru komnar á tíma, loftræsting og lýsing eru ófullnægjandi og brunavarnir uppfylla ekki opinberar kröfur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á Tjarnargötunni taki allt að eitt og hálft ár. Flutningar og opnun þjónustuvers á nýjum stað verða auglýst þegar nánari tímasetningar liggja fyrir í febrúar.
Auk bæjarskrifstofa og Keilis er stefnt á að Fjölbrautaskóli Suðurnesja leigi aðstöðu fyrir nám í fótaaðgerðafræði sem var áður námsleið hjá Keili. Þá hefur leikskólinn Drekadalur starfað í húsinu frá september 2024 og mun vera áfram þar til húsnæði leikskólans við Drekadal verður tilbúið í vor. Einnig eru uppi hugmyndir um frekari nýtingu á húsnæðinu sem verða kynntar síðar.