Falleg vetrarmynd frá Brú milli heimsálfa.
Ný könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna sem dvöldu á Íslandi á vetrartíma frá september 2011 til maí 2012 sýnir að af 35 stöðum sem spurt var sérstaklega um varðandi heimsóknir lenti Reykjanesbær í 6. sæti yfir flestar heimsóknir. Tæplega 22% svarenda sögðust hafa heimsótt Reykjanesbæ.
Langflestir sögðu Bláa Lónið minnisstæðast við heimsókn til Íslands.
Af stöðum á landinu sögðust flestir hafa heimsótt Þingvelli, Geysi eða Gullfoss (61,0%), Vík (32,6%), Skóga (27,3%), Skaftafell (22,8%), Reykjanesbæ (21,9%), Snæfellsnes þjóðgarð (20,7%), Reykjanesvita/Gunnuhver/Brú milli heimsálfa (15,1%), Akureyri (13,7%), Hornafjörð (13,0%) Borgarfjörð (12,6%), Mývatn (11,8%) og Eyrarbakka (10,9%).
„Þetta er ánægjuleg þróun fyrir okkur í Reykjanesbæ. Bærinn hefur smám saman verið að laða til sín fleiri ferðamenn þótt mun lægra hlutfall velji enn að gista hér en heimsækja bæinn. Við sjáum umtalsverða aukningu á heimsóknum ferðamanna í Víkingaheima og út á Reykjanesið“.
Í könnuninni kemur fram að 95% svarenda sögðust hafa gist í Reykjavík og nágrenni og var meðaldvalarlengdin fimm nætur. 6,6% svarenda sögðust hafa gist á Reykjanesi.
Ferðamálastofa segir könnunina byggða á að netföngum var safnað með skipulögðum hætti á komu- og brottfararsvæði flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á tímabilinu 1. september 2011 til 31. maí 2012. Úrtakið var 4.512 manns og var svarhlutfallið 52,6%