Frá undirritun samstarfssamningsins sl. þriðjudag. Daníel Einarsson verkefnisstjóri Reykjanes UNESCO Global Geopark og Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri Reykjaneshafnar handsala hér samninginn.
Reykjaneshöfn og Reykjanes UNESCO Global Geopark undirrituðu nýverið samstarfssamning. Þar með er Reykjaneshöfn orðinn stoltur samstarfsaðili jarðvangsins, eins og Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri komst að orði við undirritun.
Á 232. fundi Stjórnar Reykjaneshafnar var samþykk að óska eftir því við Reykjanes UNESCO Global Geopark að Reykjaneshöfn yrði samstarfsaðili jarðvangsins. Sem samstarfsaðili hefur Reykjaneshöfn heimild til að nota sérhannað samstarfsmerki Reykjanes Geopark í markaðssetningu starfsemi hafnarinnar gagnvart smærri skemmtiferðaskipum. Einnig mun Reykjanes Geopark kynna samstarfsfyrirtækið á sama hátt og fyrirtækið mun kynna Reykjanes Geopark.
Reykjanes UNESCO Global Geopark
UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi Reykjanes sem UNESCO Global Geopark árið 2015. UNESCO Global Geoparks eru svæði þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvægar á heimsvísu er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.
Í UNESCO Global Geopark eru jarðminjar nýttar ásamt öðrum náttúru- og menningarminjum svæðisins til að vekja athygli og skilning á þeim brýnu úrlausnarefnum sem blasa við samfélagi okkar: Sjálfbærri nýtingu auðlinda, samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig draga má úr áhrifum náttúruhamfara.
Reykjanes UNESCO Global Geopark vinnur einnig þvert á landamæri og er aðili að stóru alþjóðlegu tengslaneti í gegnum European Geoparks Network og Global Geoparks Network.