Samkeppni um best skreytta húsið og fjölbýlishúsið

Íbúar í Reykjanesbæ eru margir hverjir sannkölluð jólabörn og leggja mikinn metnað í jólaskreytingar utandyra. Það er líka einstaklega gaman að taka rúnt um bæinn og skoða þessar fallegu skreytingar. Þar sem bærinn okkar stækkar stöðugt geta glæsilegar jólaskreytingarnar leynst víða og því finnst okkur tilvalið að smella í laufléttan jólaleik þar sem íbúar geta komið með tillögur að best skreyttu húsunum og fjölbýlishúsunum í bænum. Húsasmiðjan ætlar að styðja við bakið á þessu uppátæki með gjafabréfi til þeirra húsa sem verða hlutskörpust í leiknum.

 

Taktu þátt á Betri Reykjanesbær

Ferlið er sáraeinfalt. Ef þú sérð hús eða fjölbýlishús sem þér finnst ástæða til að vekja athygli á fyrir flottar skreytingar, þá smellirðu mynd af húsinu og leggur götuheiti og númer á minnið. Síðan er farið á vefsíðuna Betri Reykjanesbær og myndinni hlaðið inn og götuheiti og númer sett í titil. Síðan smellið þið á hjartað til að greiða húsinu atkvæði.

Í ár ætlum við að kjósa um best skreytta húsið annars vegar og best skreytta fjölbýlishúsið hins vegar.

 

Það er hægt að kjósa til 19. desember

Hægt er að senda inn tilnefningar og kjósa til og með 19. desember næstkomandi. Afhending viðurkenninga fyrir best skreytta húsið og fjölbýlishúsið fer síðan fram í Aðventugarðinum á Þorláksmessu þar sem sigurvegarar fá einnig afhenta vinninga í boði Húsasmiðjunnar.

Hér fyrir neðan eru hlekkir fyrir besta skreytta húsið og fjölbýlishúsið á vefnum Betri Reykjanesbær.

Best skreytta fjölbýlishúsið

Best skreytta húsið